Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á Menntaskólanum á Tröllaskaga

Birt hefur verið niðurstaða úttektar á Menntaskólanum á Tröllaskaga

Menntaskólinn á Tröllaskaga

Úttektin var gerð fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti  á grundvelli 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og samkvæmt þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis um úttektir á framhaldsskólastigi. Markmið úttektarinnar var að leggja mat á starfsemi skólans með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og veita almennar upplýsingar um starfsemi hans. Lagt var mat á stjórnun og rekstur, skólanámskrá, nám og kennslu, skólabrag og samskipti, samstarf við foreldra, sérþarfir nemenda og kannað hvort innra mat skólans mætti ákvæðum aðalnámskrár og þörfum hans.

Í samantekt skýrslunnar um Menntaskólann á Tröllaskaga segir m.a.:

Helstu styrkleikar skólans eru sérstaða hans í námsfyrirkomulagi, námsmati og kennsluháttum og notkun upplýsingatækni, metnaðarfullt, samstillt og vel menntað starfsfólk, ánægðir nemendur og starfsfólk og jákvæður skólabragur, markviss stjórnun, trúverðugir stjórnendur og mikil tengsl skóla og jákvæðs grenndarsamfélags sem skólinn hefur hækkað menntunarstig í.

Veikleikar eru þeir helstir að húsnæði er of lítið og viðhaldi ábótavant, mötuneyti ekki til staðar, foreldraráð lítið virkt og félagslíf nemenda á erfitt uppdráttar.

Helstu tillögur til úrbóta eru að nemendur eigi fulltrúa í sjálfsmatshópi, húsnæðisþörf skólans verði metin, starfshlutfall aðstoðarskólameistara verði aukið, rýnt verði betur í líðan nýnema og af hverju svo mörgum þeirra finnst námið of létt og skoða frekar skipulag félagsstarfs nemenda og ástæður fyrir slakri þátttöku þeirra þar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum