Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breyting á reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla

Heiti reglugerðarinnar breytist í reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskólum enda fjallar hún um þjónustu, ábyrgð og skyldur við nemendur en ekki um nemendur sérstaklega.

Með reglugerð nr. 148 frá 22. janúar 2015 eru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð nr. 584/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum, m.a. í ljósi athugasemda og kærumála sem komið hafa til kasta ráðuneytisins og ábendinga umboðsmanns Alþingis sem telur að ráðuneytið eigi að hlutast meira til um það með hvaða hætti staðið er að innritun í sérskóla og málsmeðferð.  

 Í fyrsta lagi breytist heiti reglugerðarinnar í reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Er sú breyting gerð vegna ábendinga frá sveitarfélögum, þar sem  reglugerðin fjallar um þjónustu, ábyrgð og skyldur við nemendur en ekki um nemendur sérstaklega.

Í öðru lagi kemur inn nýtt ákvæði þar sem  mennta- og menningarmálaráðuneytið skal setja sveitarfélögum, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gerð starfsreglna sérskóla og sérúrræða innan grunnskól,a sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla, sem sveitarfélögum verði skylt að fara eftir.  Við setningu grunnskólalaga 2008 var horfið frá aðkomu ráðuneytis að starfsreglum sérskóla og þótti það rétt á þeim tíma að sveitarfélög sæju alfarið um að setja slíkar reglur. Gagnrýnt hefur verið að ráðuneytið hafi sett frá sér mikilvægt tæki til að hafa áhrif á útfærslu ákvæða laga og reglugerðar. Ekki er gert ráð fyrir staðfestingu ráðuneytisins á starfsreglum sem sveitarfélög setja skv. þessu reglugerðarákvæði  en eftirlitshlutverk ráðuneytisins mun felast í eftirliti með framangreindu.

Í þriðja lagi verður sú breyting á 20. gr. reglugerðarinnar að ráðherra skuli staðfesta reglur sveitarfélaga um innritun og útskrift nemenda úr sérskóla eða sérúrræði sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla.  Gagnrýni umboðsmanns Alþingis á gildandi reglugerð hefur m.a. beinst að því að ráðuneytið hafi látið frá sér það vald að hafa áhrif á reglur um innritun í sérskóla og sérúrræði innan grunnskóla. Hér er komið til móts við það sjónarmið þannig að sveitarfélög sem reka sérskóla eða sérúrræði sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla skulu fá staðfestingu ráðherra á reglum um innritun og útskrift nemenda áður en slíkar reglur taka gildi.

Loks eru nokkrar breytingar gerðar í anda barnalaga, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þær breytingar lúta m.a. að því að tryggja að nemendur og foreldrar hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafi áhrif á fyrirkomulag þjónustunnar og val á úrræðum, eftir því sem rúmast innan ramma laga og reglugerða hverju sinni.

http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=66d600e3-76a5-4932-8577-c3ed5728b726

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum