Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framlag Íslands í OECD skýrslu um aðföng í menntakerfum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt skýrslu með upplýsingum um framkvæmd menntamála á Íslandi með tilliti til starfsemi, mannauðs og stefnu stjórnvalda.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt skýrslu með upplýsingum um framkvæmd menntamála á Íslandi með tilliti til starfsemi, mannauðs og stefnu stjórnvalda, sem unnin var í samstarfi ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Skýrslan er fyrsti hluti af úttekt sem Efnahags- og framfarastofnunin OECD vinnur að um ráðstöfun og nýtingu aðfanga (e. resources) í menntakerfum aðildarríkjanna „OECD Review of Policies to Improve the Effectiveness of Resource Use in Schools“ (School Resources Review). Markmiðið með verkefninu er að greina hversu vel hefur tekist að ná settum markmiðum menntakerfisins, hvetja til betra náms og kennslu og stuðla að nýsköpun. Úttektinni er ætlað að skila greiningu og ráðgjöf um stefnumótun til leiðbeiningar stjórnvöldum og skólum til að ná fram markmiðum sínum um markvirkni (effectiveness) og skilvirkni (efficiency) í menntun. Verkefnið tekur til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs.

Framkvæmd úttektarinnar verður í þremur áföngum. Í þeim fyrsta vinna sérfræðingar á vegum OECD greiningu á fyrirliggjandi gögnum og rannsóknum á markvirkni í menntakerfum. Jafnframt vinna þátttökuríkin bakgrunnsskýrslu samkvæmt forskrift sérfræðinga OECD þar sem fjallað er um stöðu í viðkomandi landi sem einnig nýtist við samanburð milli landa. Í öðrum áfanga heimsækja sérfræðingar OECD ríkin, ræða við helstu hagsmunaaðila og vinna skýrslu með stöðugreiningu og ráðgjöf fyrir hvert þátttökuríki. Í lokaáfanga úttektarinnar er síðan gerð skýrsla með samantekt um hvaða aðgerðir eru líklegastar til að skila árangri til að auka markvirkni í menntakerfum og ráðgjöf um stefnu og aðgerðir sem einstök ríki geta nýtt sér.

- Vefur OECD um úttektina

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum