Hoppa yfir valmynd
9. mars 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vasulka stofan hlaut norskan styrk

Vasulka stofan í Listasafni Íslands hlaut hæsta styrkinn af árlegu framlagi norskra stjórnvalda til norsks – íslensks menningarsamstarfs

Listasafn-Islands-Vasulka

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Cecilie Landsverk sendiherra Noregs á Íslandi voru viðstödd athöfn í Listasafninu þar sem sendiherrann fyrir hönd Menningaráðs Noregs afhenti styrkinn. Styrkurinn er að fjárhæð 3,5 millj.kr. og ætlunin er að ráðstafa honum til áframhaldandi skráningar og varðveislu á vídeóverkum og skyldum listaverkum í samstarfi við Videokunstarkivet í Osló og Norgesfilm í Kristianssand. Kristín Scheving deildarstjóri  og Halldór B. Runólfsson forstöðumaður Listasafns Íslands tóku við styrknum fyrir hönd safnsins.

Árið 1994 ákváðu norsk stjórnvöld að leggja til árlegt framlag til norsks-íslensks menningarsamstarfs sem Haraldur V Noregskonungur kynnti í heimsókn sinni til Íslands í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Framlaginu er ráðstafað af Norsk kulturråd (Norska menningarráðinu) í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Árlega veitir norska þingið 1.500.000 norskar krónur til verkefnisins.

Markmið framlagsins er að stuðla að fjölbreyttu menningarsamstarfi Noregs og Íslands. Norskir og íslenskir listamenn, þeir sem starfa að menningarmálum, menningarstofnanir og samtök geta sótt um styrk.

Framlag til norsks-íslensks menningarsamstarfs

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum