Hoppa yfir valmynd
17. mars 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráð um drög að frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum – eintakagerð til einkanota

Helstu nýmælin eru breikkun á gjaldstofni höfundaréttargjalds vegna nýrrar tækni þannig að  það greiðist einnig af fjölnota tækjum svo sem símum, tölvum, flökkurum, hörðum diskum (HDD) og þess háttar hljóð- og myndmiðlunarbúnaði.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lokið við drög frumvarpi til laga um breytingar á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum er varðar eintakagerð til einkanota. Tilgangur frumvarpsins er að veita lagastoð fyrir ákvæðum í nýrri reglugerð, sem einnig er til kynningar.

Frumvarpið er samið á grunni tillagna starfshóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði til að endurskoða reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds, nr. 125/2001, með síðari breytingum. Tilefnið voru óskir rétthafa um breikkun á gjaldstofni höfundaréttargjalds með tilliti til nýrrar tækni þannig að höfundaréttargjald greiðist af hvers konar fjölnota tækjum sem nýta má til upptöku og eftirgerðar verndaðra hljóðrita og myndrita, svo sem símum, tölvum, flökkurum, hörðum diskum (HDD) og þess háttar hljóð- og myndmiðlunarbúnaði. Þegar niðurstöður endurskoðunar reglugerðarinnar lágu fyrir varð ljóst að lagastoð þurfti fyrir þeim breytingum sem voru lagðar til.

Frumvarpsdrögin fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps, sem fyrirhugað er að ráðherra leggi fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 22. mars 2015. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Frumvarp til breytinga á höfundalögum - eintakagerð til einkanota“.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum - eintakagerð til einkanota

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum