Hoppa yfir valmynd
20. mars 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Umfang og hagræn áhrif íþrótta á Íslandi

Nærri helmingur landsmanna eru félagar í ÍSÍ, skráð velta íþróttahreyfingarinnar er um 16 milljarðar kr. á ári og heildarvelta íþróttastarfsins er umtalsvert meiri en skráð velta gefur til kynna.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann að frumkvæði  mennta- og menningarmálaráðuneytis skýrslu um hagræn áhrif íþrótta. Tilgangur skýrslunnar er í fyrsta lagi að leggja  grunn að frekari úttekt og rannsóknum á stöðu og umfangi íþrótta, afmarka viðfangsefnið og kanna hvaða gögn um hagrænt gildi íþrótta séu aðgengileg. Í öðru lagi er tilgangur skýrslunar að greina þá megin þætti íþróttastarfsins sem mikilvægt er að athuga nánar og í þriðja lagi að kynna fyrstu niðurstöður um tiltekna efnisþætti. Við gerð skýrslunnar var notast við þrönga skilgreiningu á íþróttum og í inngangi hennar er áréttað að um forathugun sé að ræða, sem ekki gefi endanlegar heildarniðurstöður um hagrænt gildi íþrótta.

 Niðurstöður skýrsluhöfunda sýna að umfang íþrótta er mjög mikið á Íslandi (þrátt fyrir að notast sé við þrönga skilgreiningu á íþróttum) og hér eru nokkur dæmi:

  • Íþróttir eru mjög umfangsmiklar í íslensku samfélagi. Þær snerta ótrúlega mörg svið þjóðlífsins hér á landi.
  • Þátttaka í íþróttum er almenn á Íslandi. Um 46% landsmanna eru til að mynda félagar í íþróttafélagi innan ÍSÍ. Einnig má sjá að um 60% 14-15 ára ungmenna stunda íþróttir innan íþróttafélaga og stór hluti þess hóps, eða um 40% allra ungmenna á þessum aldri, stundar íþróttir í íþróttafélagi 4 sinnum eða oftar í viku. Þá eru ótaldir allir þeir sem stunda íþróttir utan íþróttahreyfingarinnar en þátttaka þeirra fellur ekki undir þessa skýrslu.
  • Íþróttahreyfingin veltir árlega um 16 milljörðum króna. Við það má bæta framlagi sjálfboðaliða sem hefur verið metið á um 4 milljarða króna. Rannsóknir sýna að um 10% íslendinga þátt í sjálfboðaliðastarfi á vegum íþróttafélaga.
  • Afreksstarf íþróttafélaga skilar verulegum gjaldeyristekjum, beinum og óbeinum, til Íslands. Íslensk knattspyrna skilar til dæmis tæpum milljarði í erlendum gjaldeyri inn í íslenskt efnahagslíf, ár hvert. Sama má segja um hestaíþróttir sem skila einnig tæpum milljarði. Einnig koma inn bæði beinar og óbeinar gjaldeyristekjur vegna afreksíþrótta í tengslum við íslenska atvinnumenn sem koma heim til Íslands með erlent fjármagn að ferli loknum. Þá má nefna að íslenskt íþróttafólk eykur landkynningu. Þessar tekjur er erfitt að meta með áreiðanlegum hætti. Í grunninn má þó ætla að gjaldeyristekjur af afreksíþróttastarfinu nemi árlega um tveimur til þremur milljörðum króna.
  • Fjöldi íþróttaviðburða eru haldnir víða um land ár hvert. Þeir hafa talsvert vægi í ferðaþjónustu, hvort sem litið er til  ferða innanlands eða erlendis.
  • Framlag íþrótta til lýðheilsu og forvarna eru einnig verulegt en erfitt er að meta það með áreiðanlegum hætti. Þó er ljóst að framlag íþróttahreyfingarinnar til lýðheilsu nemur milljörðum eftir að tillit hefur verið tekið til kostnaðar vegna íþróttastarfsins.

Í skýrslunni er hagrænu gildi íþrótta skipt upp í 8 flokka. Umfjöllun um þessa flokka er ekki tæmandi og er sumum flokkum gerð mun betri skil en öðrum. Þá eru sett fram ákveðin dæmi úr íslensku íþróttalífi til að veita innsýn í starfið og afleiður þess. Litið er til þátta eins og íþróttaþátttöku, skráðrar veltu íþróttahreyfingarinnar, beinna og óbeinna gjaldeyristekna af íþróttastarfi, íþróttamóta og ferðalaga tengdum íþróttum sem og lýðheilsuáhrifum íþróttastarfs. Þá verður að hafa í huga að framleiðsla og hönnun á íþróttavörum er vaxandi atvinnugrein.

Höfundar skýrslunnar benda enn fremur á að vaxtarmöguleikar íþróttastarfsins eru miklir og í þeim felast tækifæri til að auka hagræn áhrif íþrótta umtalsvert á komandi árum.

Ábyrgðarmaður könnunarinnar var dr. Þórólfur Þórlindsson, prófessor en aðrir sem unnu að henni voru Viðar Halldórsson, Jónas Hlynur Hallgrímsson, Daði Lárusson og Drífa Pálin Geirs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum