Hoppa yfir valmynd
8. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þjónustusamningur við Myndlistarskólann í Reykjavík

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði þjónustusamning við Myndlistarskólann í Reykjavík

Myndlistarskolinn-Thjonustusamningur

Fimmtudaginn 7. maí heimsótti Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra Myndlistaskólann í Reykjavík. Tilefnið var undirritun samnings til næstu þriggja ára um rekstur sjónlistadeildar. Ráðherrann kynnti sér að auki starfsemi skólans og heilsaði upp á þátttakendur í vinnustofu fyrir fólk með þroskahömlun en þau voru í sínum síðasta tíma þetta skólaárið.

Um er að ræða hefðbundinn þjónustusamning um kennslu á framhaldsskólastigi á grundvelli heimildar í 3. mgr. 44. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Í samningnum við Myndlistarskólann segir m.a. að skólinn skuli veita nemendum og kennurum þjónustu og aðbúnað sem er nauðsynleg og almennt tíðkast til annars vegar undirbúningsnáms fyrir nemendur sem stefna á framhaldsnám í myndlist og myndlistanáms fyrir almenning og hins vegar stúdentsprófs af sjónlistabraut í samstarfi við Kvennaskólann.

 Miðað er við að fjöldi nemenda í undirbúningsnámi og námi fyrir almenning sé á bilinu 26-32 nemendur og fjöldi nemenda á sjónlistabraut til stúdentsprófs sé 32. Í báðum tilfellum  er miðað við ígildi nemenda (ársnemendur) í fullu námi. Mikil samsvörun er milli undirbúningsnáms og náms á sjónlistabraut þar sem nemendur beggja námsleiða eru að mestu leyti í sömu verklegu áföngunum.

Áslaug Thorlacius undirritaði samninginn fyrir hönd Myndlistarskólans í Reykjavík.  Samningurinn verður birtur á vef ráðuneytisins innan tíðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum