Hoppa yfir valmynd
13. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ályktun norrænu menningarmálaráðherranna um fjölmiðlun í almannaþágu og um aðgerðir gegn ólöglegri verslun með menningarminjar

Reglulegur fundur í norrænu ráðherranefndinni um menningarmál stendur yfir í Færeyjum

Norraenir-radherrar-i-Faereyjum

Fyrri reglulegi fundurinn á þessu ári í norrænu ráðherranefndinni um menningarmál stendur nú yfir í Færeyjum. Á dagskrá fundarins er meðal annars umræða um fjárframlög til menningarmála í fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir árið 2016, þemaumræða um fjölmiðla í almannaþágu og yfirlýsing  um ólöglega verslun með menningarminjar frá Írak og Sýrlandi. Einnig verður rætt um fyrirkomulag á framkvæmd sameiginlegra norrænna menningarsamskipta við önnur ríki.

Umræður ráðherranna um fjölmiðla í almannaþágu snérust einkum um menningarlegt og samfélagslegt hlutverk þeirra í  framtíðinni, þ.e. í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað í fjölmiðlaumhverfi með nýjum miðlunarleiðum (d. de nordiske public service-mediers kulturpolitiske og samfundsmæssige rolle i den digitale fremtid). Í niðurstöðum umræðnanna, sem ráðherrarnir sendu frá sér, segir m.a. að þeir leggi áherslu á mikilvægi þess að norrænir fjölmiðlar í almannaþágu í stafrænni framtíð, skuli áfram gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að og styrkja lýðræðislega umræðu í samfélögunum. Fjölmiðlar í almannþágu eiga áfram að sjá til þess að íbúar Norðurlanda hafi aðgang að óháðu fréttaefni og fjölbreyttu úrvali af góðu, nýju, spennandi og viðeigandi efni í almannaþágu, sem tekur mið af menningarlegum og samfélagslegum gildum á hverjum stað auk þess að styðja við norræn tungumál.

Í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu menningarmálaráðherra um rán og skemmdir á menningarverðmætum í Írak og Sýrlandi er meðal annars lögð áhersla á hlutverk Norðurlanda við að hafa frumkvæði að því að hindra ólöglega verslun með þær minjar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og UNESCO hafa samþykkt ályktanir um þetta alvarlega mál og reynt að koma í veg fyrir gripdeildir og eyðileggingu þeirra merku menningarminja sem um er að ræða. Ráðherrarnir taka undir og styðja þetta frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og hvetja alla þá sem stunda viðskipti með menningarminjar að vera á varðbergi í þessu efni.

Sjá nánar um fjölmiðlamálin og um menningarminjar í Írak og Sýrlandi

Ljósmynd: Louise Hagemann/Norden.org

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum