Hoppa yfir valmynd
5. júní 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vegna umræðna um málefni tónlistarskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneyti telur óvarlegt að draga viðamiklar ályktanir út frá stöðu málsins núna

Vegna umræðna í fjölmiðlum um hugsanlegar breytingar á fyrirkomulagi á stuðningi ríkisins við tónlistarnám framhaldsskólanemenda telur ráðuneytið óvarlegt að dregnar séu viðamiklar ályktanir af þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir og stöðu málsins. Það er á upphafsreit, enn er eftir að ræða við alla málsaðila og engar ákvarðanir hafa verið teknar.

Ýmsir aðilar hafa komið á máli við ráðherra og lýst áhyggjum sínum af núverandi fyrirkomulagi . Ýmsar hugmyndir til lausnar hafa verið viðraðar, þar á meðal að setja á fót nýjan framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu með tónlist sem sérgrein. Til að bregðast við þessu hefur verið skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, fjármála- og efnahagsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Hópnum er ætlað að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á framhaldsnámi í tónlist og tónlistarnámi á 4. hæfniþrepi, sem útfært verður í uppfærðum drögum að frumvarpi tillaga um tónlistarkennslu.

Forsögu málsins má rekja til samkomulags um eflingu tónlistarnáms til jöfnunar á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. maí 2011, þar sem veitt er kennsluframlag úr ríkissjóði til mið- og framhaldsnáms í söng. Rétt er að benda á að aðkoma ríkissjóðs að fjárhagslegum stuðningi við tónlistarnám, sem ákveðin var í samkomulagi um eflingu tónlistarnáms, var tímabundin. Henni var ætlað  að koma til viðbótar lögákveðnu framlagi sveitarfélaga til tónlistarnáms til að greiða fyrir innritun nemenda í tónlistarskóla óháð lögheimilissveitarfélagi þeirra. Í ljós hefur komið að ágreiningur er um túlkun þessa samkomulags og sem meðal annars birtist í mjög alvarlegri rekstrarstöðu flestra tónlistarskóla í Reykjavík. Fyrrgreint samkomulag hefur í raun verið til umræðu og stöðugrar endurskoðunar allt frá upphafi og í ljós hafa komið fleiri vankantar á því en ágreiningur um túlkun og því telur ráðherra nauðsynlegt að fara í saumana á öllu þessu máli til að bæta stöðu þeirra nemenda, sem um ræðir, gera tónlistarnámið öflugra og reyna finna lausnir að viðvarandi fjárhagsvanda viðkomandi skóla.

Samráð verður haft við alla hagsmunaaðila og þannig reynt að stuðla að því að sátt náist um málið enda mikið í húfi fyrir framtíð tónlistarnáms á Íslandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum