Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Greining á framkvæmd skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi

Fyrirliggjandi gögn benda til að almennt er talið að hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sé jákvæð og að það sé mikilvægt að öll börn eigi kost á að sækja nám í heimaskóla

Haustið 2013 var samþykkt að ráðuneytið tæki þátt í samstarfi um greiningu á framkvæmd skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi. Samstarfið byggði á samkomulagi um endurnýjaða viðræðuáætlun milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna kjarasamningsviðræðna við Félag grunnskólakennara.

Starfshópurinn, sem auk ofangreindra aðila tók einnig til fulltrúa úr velferðarráðuneytinu, hefur skilað niðurstöðuskýrslu. Aðrar afurðir greiningarvinnunnar sem lokaskýrsla starfshópsins byggir á eru skýrslan Skóli án aðgreiningar - Samantekt á lögum og fræðilegu efni og skýrslan Greining á gögnum um sérkennslu frá Hagstofu Íslands. Auk þess byggir lokaskýrsla starfshópsins á niðurstöðum úr Úttekt á fyrirkomulagi og framkvæmd sérfræðiþjónustu í sex sveitarfélögum sem ráðuneytið lét gera árið 2013 og bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar.

Í lokaskýrslu starfshópsins er dregið fram að fyrirliggjandi gögn sýna að almennt er litið svo á að hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar er jákvæð og að það sé mikilvægt að öll börn eigi kost á að sækja nám í heimaskóla. Almennt er þó talið erfitt að framfylgja stefnu um skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi. Stefnan er talin hafa breytt skólastarfi að verulegu leyti, en það þurfi m.a. aukið fjármagn, meiri sérfræðiþekkingu, meiri faglegan stuðning og aukið svigrúm í vinnutíma kennara til að framkvæma hana með fullnægjandi hætti. Talin er þörf á meiri umræðu um stefnuna, hvað hún þýði og hvað þurfi til að framkvæma hana. Það þurfi jafnframt að efla rannsóknarstarf, auka eftirlit með skólastarfi, endurskoða starfshætti og stuðning við kennara og huga að inntaki menntunar þeirra og starfsþróun, tryggja samræmd vinnubrögð sérfræðiþjónustu skóla, skýra verksvið og samstarf aðila og auðvelda aðgengi að sérhæfðum úrræðum.

Hugmyndafræði menntastefnu um skóla án aðgreiningar og hlutverk grunnskólans í þjónustu við nemendur er sett fram í lögum, reglugerðum, aðalnámskrám og alþjóðlegum sáttmálum.  Á grundvelli þeirra skuldbindinga er réttur allra nemenda til menntunar við hæfi ríkur, og að komið sé til móts við þarfir hvers og eins m.a. út frá hugmyndum um lýðræði og félagslegt réttlæti. Þessi réttur nemenda kallar á að skipulag skólastarfs taki tillit til þess að öllum nemendum standi til boða heildstæð þjónusta við hæfi. Sú þjónusta getur verið á hendi margra aðila, sem tilheyra bæði skóla- og velferðarkerfi.

Starfshópurinn telur á grundvelli þeirra gagna sem skýrsla hans byggir á að ekki virðist hafa verið skilgreint af stjórnvöldum fyrirfram hvað þessi samþætta heildstæða þjónusta við nemendur þýddi í raun, auk þess sem verklag og skipulag skólastarfs og laga- og reglugerðarumhverfi milli kerfa virðist ekki hafa verið nægilega samhæft og að ýmislegt megi gagnrýna í framkvæmd liðinna ára sem brýnt er að ráðin verði bót á.  Í skýrslunni er bent á að sem lið í slíkum umbótum, megi vísa til vinnu sem unnin hefur verið að undanförnu á vettvangi ríkis og sveitarfélaga um grá svæði” í verkaskiptingu þeirra á sviði velferðarþjónustunnar.

Niðurstaða starfshópsins er sú að greining, umfram það sem þessi greiningarvinna dregur fram um hvernig til hafi tekist með framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar hér á landi, sé nánast ómöguleg á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með hliðsjón af því, þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslunni og þeim gögnum sem höfð voru til hliðsjónar, setti starfshópurinn fram eftirfarandi áherslupunkta:

1.   Veruleg þörf er á frekari greiningu á stöðu og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar og áhrifum hennar á skólastarf, þ.m.t. á líðan og árangur nemenda. Því er lagt til að formlegar viðræður hefjist við  Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir með ósk um að miðstöðin geri sambærilega úttekt á Íslandi og nýverið var unnin á Möltu fyrir stjórnvöld, en sem mótuð verði í samræmi við íslenskar aðstæður. Það liggur fyrir að Evrópumiðstöðin er reiðubúin að taka slíkt eins árs verkefni að sér frá og með haustinu 2015. Leggur hópurinn til að úttektin nái til leik-, grunn- og framhaldsskólastigsins og byggi m.a. á þeim gögnum sem liggja fyrir í tengslum við þessa skýrslu. Telur hópurinn mikilvægt að framhaldsskólastigið verði ekki undanskilið, enda hefur ríkið fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og í reglugerðum um nemendur með sérþarfir í grunn- og framhaldsskólum er áréttað mikilvægi samfellu í þjónustu milli skólastiga. Þjónusta við nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum hefur ekki verið tekin út með skipulegum hætti og telur hópurinn mikilvægt að skoða áhrif stefnunnar um skóla án aðgreiningar á það skólastig einnig.

2.   Úttekt Evrópumiðstöðvar verði fylgt eftir með skipulögðum hætti með umbætur í huga, þvert á skólastig og þvert á ráðuneyti

3.   Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna markvisst að því að eyða “gráum” svæðum í þjónustu við nemendur sem þurfa sérstakan stuðning og tryggja aukna fagþekkingu starfsfólks.

4.   Leggja þarf aukna áhersla á vægi snemmtækrar íhlutunar og ráðgjafar og þjálfunar, í stað formlegra greininga. Skoða þarf sérstaklega hlutverk sérskóla í þessu samhengi, með ráðgjöf við skóla og skólasamfélög á landsvísu í huga.

Ráðuneytið hefur ákveðið með hliðsjón af 1. lið að óska eftir úttekt af hálfu Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir og standa vonir til þess að þeir aðilar sem staðið hafa að þeirri grunngreiningu sem nú liggur fyrir, standi sameiginlega að áframhaldandi mati á framkvæmd um skóla án aðgreiningar. Gert er ráð fyrir að fyrsti samráðsfundur verkefnisins verði haldinn 11. september nk.

Hér má nálgast skýrslu starfshópsins Mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar

Sjá einnig á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum