Hoppa yfir valmynd
28. september 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Veiting Evrópumerkisins árið 2015

Evrópumerkið (European Label) var afhent við hátíðlega athöfn í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Evrópska tungumáladeginum, 26. september 2015.

Evropumerkid3

Evrópumerkið er viðurkenning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Viðurkenninguna hlaut verkefnið  Velkomin - Úrræði fyrir móttöku og samskipti frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í verkefnastjórn Huldu Karenar Daníelsdóttur og Þorbjargar Þorsteinsdóttur. Í niðurstöðu dómnefndar segir að um sé að ræða metnaðarfullt og fjölþætt verkefni sem hafi það meginmarkmið að auðvelda aðlögun og samskipti við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og foreldra þeirra hvar á landinu sem þeir búa, bjóða þau þannig velkomin og styðja markvisst við félagslega aðild þeirra að samfélaginu.










Auk Evrópumerkisins, sem framkvæmdastjórn ESB og mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir, var 300 þúsund króna verðlaunafé frá ráðuneytinu veitt sem er ætlað til frekari kynningar og þróunar á verkefninu. Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu afhenti Huldu Karen Daníelsdóttur og Þorbjörgu Þorsteinsdóttur viðurkenninguna og verðlaunaféð. Á myndinni er auk þeirra Sunna Viðarsdóttir starfsmaður mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum