Hoppa yfir valmynd
29. september 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vegna frétta um verkefni LC ráðgjafar ehf. fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið

Verkefnin lutu að mótun á starfsemi Menntamálastofnunar og við að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að ná markmiðum hvítbókar um umbætur í menntun.

Raduneytid

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert þrjá samninga við LC ráðgjöf ehf. Samkvæmt fyrsta samningnum tók LC ráðgjöf að sér verkefnisstjórn og ráðgjöf við að búa til aðgerðaráætlun sem fylgt yrði við stofnun Menntamálastofnunar, sem varð til með samþættingu á verkefnum Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og ýmsum sýsluverkefnum ráðuneytisins. Í verkinu fólst enn fremur að greina verkefnin og móta hlutverk, framtíðarsýn, stefnu, gildi og helstu markmið nýju stofnunarinnar. Verkefnið stóð yfir frá 1. mars til 31. maí 2014. Heildarþóknun fyrir verkið var 3.750.000 kr. fyrir utan virðisaukaskatt.

Markmið ráðuneytisins var að fá reynslumikla ráðgjafa á sviði stefnumótunar og breytingarstjórnunar til að þessar umfangsmiklu breytingar heppnuðust sem best og telur það að ráðgjöf og vinna LC ráðgjafar ehf. við þetta verkefni hafi verið afar þýðingarmikil.

Reynslan af samstarfi við LC ráðgjöf við framangreint verkefni var helsta ástæða þess að ráðuneytið ákvað að leita til LC ráðgjafar við mótun aðgerðaáætlunar í samræmi við markmið Hvítbókar um eflingu menntunar. Heildarþóknun til verksala fyrir verkið var 8.000.000 kr. .kr. fyrir utan virðisaukaskatt og miðað við að LC ráðgjöf ynni að lágmarki 445 klst.  á tímabilinu frá september 2014 til loka desember 2014.  Innifalin í fjárhæðinni var þóknun til ráðgjafanna vegna vinnu við undirbúning verkefnisins, sem fram fór í ágúst 2014 og fyrr.

Að lokum var gerður samningur við LC ráðgjöf ehf. í apríl 2015 um framkvæmd, stefnumótun og aðgerðaáætlun um læsi. Einn þáttur í verkefninu var að undirbúa Þjóðarsáttmála um læsi, sem öll sveitarfélög í landinu hafa undirritað. Miðað var við að lágmarki 222 klst. vinnu ráðgjafa á tímabilinu frá febrúar til loka júlí 2015. Fyrir þetta verk voru greiddar 3.600.000 kr.

Greiðslur fyrir verkefnin þrjú falla innan viðmiðunarfjárhæða fyrir útboðsskyld kaup. Því er ekki um útboðsskyld verkefni að ræða.

Guðfinna Bjarnadóttir er annar tveggja eigenda LC ráðgjafar og lauk stúdentsprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1977 og doktorsnámi  í sálfræði með áherslu á stjórnun 1991. Hún kenndi við Myllubakkaskóla í sjö ár m.a. lestur.  Á árunum 1991-1999 var hún eigandi, forstjóri og ráðgjafi hjá LEAD Consulting í Bandaríkjunum og rektor Háskólans í Reykjavík frá 1998-2007. Guðfinna hefur gegnt ýmsum öðrum störfum hérlendis er tengjast menntamálum og rekstri. Hún hefur víðtæka reynslu af ráðgjafastörfum bæði hér á landi og erlendis Það er mat ráðuneytisins að reynsla og þekking ráðgjafa hjá LC ráðgjöf ehf. hafi verið mikilvæg og reynst afar vel við mótun á starfsemi Menntamálastofnunar annars vegar og hins vegar við að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að ná markmiðum Hvítbókar um umbætur í menntun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum