Hoppa yfir valmynd
26. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Um kennslutíma til stúdentsprófs

Þegar kennslutími í grunnskólum og framhaldsskólum er lagður saman kemur í ljós að nám til stúdentsprófs hefur lengst um u.þ.b. 22% síðan 1976.
Mynd: Börn á Þjóðmunjasafni
Mynd: Börn á Þjóðmunjasafni

Grunnskólinn

Frá setningu laga um grunnskóla 1974 hefur kennslutími grunnskólabarna i skyldunámi lengst um tæplega 30%. Samkvæmt lögunum frá 1974 átti starfstími grunnskóla að vera 7-9 mánuðir en það var sett í hendur Fræðsluráðs og skólanefndar að ákveða hvort skólavikan væri 5 eða 6 dagar. Í lögunum frá 1974 voru einnig sett viðmið fyrir vikulegan kennslutíma eftir aldri barnanna. Þetta verklag hefur haldist allt fram á þennan dag þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á framsetningu viðmiðunar­stundaskrár.

Með lögum um grunnskóla frá 1990 var skólatíminn lengdur í 10 ár með því að 6 ára bekkurinn var felldur undir skólaskylduna en margir skólar höfðu þá boðið upp á kennslu fyrir 6 ára börn um nokkurt skeið. Heildarkennslutími jókst þó ekki sem nam heilu ári þar sem vikulegum kennslustundum í eldri bekkjum var fækkað samfara þessari breytingu sbr. neðangreinda töflu.

Tafla 1
Vikulegur lágmarkskennslutími í grunnskólum samkvæmt viðmiðunarstundaskrá

Ár 1 b 2 b 3 b 4 b 5 b 6 b 7 b 8 b 9 b 10 b Alls
1973 21 22 24 31 33 35 38 38 0 0 242 [1]
1976 20 21 25 31 33 35 37 37 37 0 276
1992 24 24 24 26 28 30 32 33 33 33 287
1995 26 27 27 27 30 32 34 35 35 35 308
2006 30 30 30 30 35 35 35 37 37 37 336

Heimild: Menntamálaráðuneytið

Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga árið 1995 var sett í lög að lágmarksfjöldi skóladaga nemenda í grunnskóla skyldi vera 172 dagar og að starfstími skóla skyldi vera 9 mánuðir. Jafnframt var lögfest að skólaárið 1999/2000 skyldu nemendur 1.-4. bekkjar eiga rétt á 30 kennslustundum á viku að lágmarki, nemendur 5.-7. bekkjar 35 kennslustundum og nemendur í 8.-10. bekk 37 kennslustundum. Miðað var við að kennslustundin væri 40 mínútur. Með breytingum á lögunum ári síðar var ákveðið að skóla­dagarnir yrðu 170 í stað 172. Með kjarasamningi kennara við sveitarfélögin frá janúar 2001 breyttist starfstími grunnskólans þannig að gert var ráð fyrir 180 skóladögum í stað 170. Sérstaklega var kveðið á um að þessir viðbótardagar væru hugsaðir til að auka fjölbreytni í skólastarfi. Þessi tímarammi hefur haldist fram á þennan dag en lögin frá 2008 kveða á um 180 skóladaga að lágmarki.

Viðmiðunarstundaskrá sem ráðuneytið gefur út veitir því nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um þann kennslutíma sem menntayfirvöld vilja tryggja nemendum á skólagöngu sinni. Vitað er að framkvæmd skólahalds hefur ekki alltaf verið í fullu samræmi við viðmiðunarstundaskrá, bæði vegna undan­þáguákvæða í eldri lögum en einnig af öðrum ástæðum s.s. kennaraskorti á landsbyggðinni og slæmum veðrum en hér á landi hefur ekki tíðkast að bæta nemendum upp skóladaga sem tapast af slíkum ástæðum.

Mynd 1 sýnir þróun kennslutíma í grunnskólum með tölum úr viðmiðunarstundaskrá frá árunum 1976, 1992, 1995 og 2006. Engin umtalsverð breyting hefur orðið á lögbundnum kennslutíma í grunnskólum frá 2006.

Mynd 1

Mynd 1 - Lögboðinn lágmarkskennslutími í grunnskólum

Heimild: Menntamálaráðuneytið

Ef lágmarks kennslutími í skyldunámi er borinn saman við lögbundinn lágmarkskennslutíma í helstu viðmiðunarlöndum kemur í ljós að kennslutími hér á landi er vel sambærilegur við þau lönd. Mynd 2 sýnir samanburð á kennslutíma 7-15 ára barna í 5 löndum.

Mynd 2

Mynd 2 - Áætlaður kennslutími í skyldunámi á Norðurlöndum 2014

Heimild: OECD og MRN

Sú tala sem OECD birtir í Education at a glance 2014 um kennslutíma á Íslandi gerir aðeins ráð fyrir 170 kennsludögum í stað 180. Á ofangreindri mynd er búið að leiðrétta fyrir þá skekkju.

Framhaldsskólar

Með lögum um menntaskóla frá 1970 var kveðið á um að til að nám til stúdentsprófs væri 144 einingar eða 18 einingar á önn, þar sem gert var ráð fyrir að hver eining samsvaraði einni kennslustund á viku yfir skólaárið. Það hefur síðan verið meginregla í skipulagi stúdentsnámsbrauta allt til ársins 2008 þegar ný lög um framhaldsskóla tóku gildi að nemendur skuli ljúka u.þ.b. 140 einingum til stúdentsprófs. Skólaárið var skilgreint sem 9 mánuðir en ekkert nánara tilgreint hversu margir kennsludagar ættu að vera á starfstíma skóla. Aftur á móti voru 6 til 8 vikur af hverju skólaári teknar frá sem prófadagar þar sem engin kennsla fór fram. Þannig hefur kennsla á hverju skólaárið verið um 7 til 7,5 mánuðir á ári. Samkvæmt úttekt sem nefnd um mótun menntastefnu birti árið 1994 kom fram að virkur kennslutími í framhaldsskólum hafi verið 26 vikur eða 130 dagar. Þetta þýðir að samanlagður kennslutími til stúdentsprófs hafi verið u.þ.b. 2.426 klukkutímar.

Með lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 er í fyrsta sinn kveðið á um að kennsludagar skuli ekki vera færri en 145 á hverju skólaári eða 29 vikur. Með þessari fjölgun kennsludaga varð kennslutími u.þ.b. 2.706 klukkutímar til stúdentsprófs og hefur sá fjöldi haldist að mest fram á þennan dag.

Með lögunum 2008 urðu grundvallarbreytingar á skipulagi framhaldsskólans. Lögin gera ráð fyrir að hægt sé að ljúka stúdentsprófi á þremur árum og að ekki sé gerður skýr greinarmunur á kennslu- og prófdögum. Sú breyting var einnig gerð að stúdentsprófið var skilgreint sem 200 einingar (feiningar) að lágmarki, sem samsvarar 66 feiningum á skólaári (í IV. kafla, 5. gr. laganna er aftur á móti tilgreint að fullt nám á skólaári veiti 60 einingar). Fjöldi vinnudaga nemenda á hverju skólaári skal samkvæmt lögunum ekki vera færri en 175 en með kjarasamningi fjármálaráðherra og Kennarasambands Íslands 2015 var þessum dögum fjölgað í 180. Þá var klippt á samband eininga og fjölda kennslustunda. Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla samsvarar ein eining þriggja daga vinnu nemanda þar sem hver dagur er u.þ.b. 6-8 vinnustundir.

Þótt flestir skólar séu farnir að bjóða upp á 3ja ára stúdentsprófsbrautir þá er á þessari stundu erfitt að segja til um hversu margar kennslustundir nemendur munu fá í þessu nýja kerfi. 3ja ára stúdents­prófsbrautir eru enn í þróun og margt bendir til þess að sá kennslu­stundafjöldi sem nemendum stendur til boða í dag muni aukast á næstu árum þegar sérstökum prófdögum fækkar vegna aukinnar áherslu á símat. Óformleg könnun á kennslutíma á 3ja ára námsbrautum í nokkrum skólum bendir til þess að heildar­kennslustundafjöldi til stúdentsprófs á hinum nýju 3ja ára námsbrautum sé 150-200 klst styttri en á eldri stúdentsprófsbrautum eða milli 2500 og 2600 klst.

Athugun leiðir í ljós að kennslutími á Íslandi er síst minni en gerist og gengur í helstu viðmiðunarlöndum okkar. Miðað við þann tíma sem gefin er upp í Noregi, Svíþjóð og Danmörku fyrir þriggja ára bóklegt nám til stúdentsprófs þá fá íslenskir framhalds­skóla­nemendur fleiri kennslustundir (í klukkutímum) heldur en nemendur í þessum löndum. Ekki eru til upplýsingar um nemendur í Finnlandi þar sem fjöldi kennslu­stunda er ekki lögbundinn en miðað er við að skólaárið hefjist um miðjan ágúst og ljúki um mánað­armótin maí og júní . Ekki er kveðið á um lengd skólaársins í Danmörku en það er miðað við að það hefjist um miðjan ágúst og ljúki í lok júní, en skólar geta að öðru leyti skipulagt skólaárið sjálfir.

Tafla 2
Kennslutími til stúdentsprófs í fjórum löndum (klst)

Land Klst Skóladagar
Ísland (3ja ára nám) 2.550 180
Noregur 2.523 190
Danmörk 2.470 -
Svíþjóð 2.180 178

Heimild: MRN og EURYDICE

Niðurstaða

Þegar kennslutími í grunnskólum og framhaldsskólum er lagður saman kemur í ljós að nám til stúdents­prófs hefur lengst um a.m.k. 22% síðan 1976. Árið 1976 taldi skyldunám í grunnskólum um 6256 klst. í kennslu (vegna undanþága var þessi tala mun lægri fyrir marga nemendur) og á sama tíma má gera ráð fyrir að kennslutími í framhaldsskólum til stúdentsprófs hafi verið 2496 klst. á fjórum árum. Samtals gerir þetta 8752 klst. Í dag má gera ráð fyrir að samanlagt nám í grunnskólum sé um 8064 klst. og að nám á stúdentsprófsbrautum sé í kringum 2550 (miðað við 3ja ára nám). Samtals gerir þetta 10614 klst. sem jafngildir rúmlega 21% lengingu á þessu tímabili. Þetta má sjá á eftirfarandi mynd.

Mynd 3

Mynd 3 - Samanlagður kennslutími til stúdentsprófs

Heimild: MRN

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, október 2015.


[1] Tekið skal fram að á þessum tíma fór stór hluti 15 ára nemenda annað hvort í Landsprófsbekk eða Gagnfræða­deild. Þessir bekkir voru hins vegar ekki skyldunám.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum