Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tímabundin undanþága í tengslum við nýjan einkunnakvarða við lok grunnskóla

Ráðuneytið hefur ákveðið að veita grunnskólum heimild til undanþágu til og með vori 2017 frá því að birta vitnisburð í bókstöfum A-D í þeim tilvikum þegar nemendur stunda ekki nám á tilteknum námssviðum í 10. bekk á yfirstandandi skólaári.

Eins og áður hefur verið tilkynnt verður nýr námsmatskvarði A-D notaður, í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013, við útskrift nemenda úr grunnskóla í fyrsta sinn vorið 2016. Þá verður tekið í notkun samræmt vitnisburðarskírteini þar sem gefa skal vitnisburð í eftirfarandi námssviðum/greinum í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla: Íslensku, ensku, Norðurlandamáli, listgreinum, verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt og valgreinum.

Ráðuneytinu barst erindi sveitarfélags þar sem óskað eftir tímabundinni undanþágu frá því að nýr einkunnakvarði taki að fullu gildi við lok grunnskóla með þeim rökum að ekki stundi allir nemendur í 10. bekk nám í vetur í öllum námsgreinum eða námssviðum skv. aðalnámskrá. Þar af leiðandi sé erfitt að gefa nemendum vitnisburð í bókstöfum A-D fyrir þau námssvið sem þeir leggja ekki stund á í vetur, sérstaklega þar sem vitnisburður var með öðrum hætti á viðkomandi sviðum þegar þeir luku námi í 8. eða 9. bekk.

Ráðuneytið hefur því ákveðið að veita grunnskólum heimild til undanþágu til og með vori 2017 frá því að birta vitnisburð í bókstöfum A-D í þeim tilvikum þegar nemendur stunda ekki nám á tilteknum námssviðum í 10. bekk á yfirstandandi skólaári. Ráðuneytið hefur skilning á því að grunnskólar þurfi ákveðið svigrúm til að innleiða nýjan námsmatskvarða að fullu við lok grunnskóla og væntir þess að þeir nýti tímann til vors 2017 til að innleiða nýjan námsmatskvarða í bókstöfum fyrir öll námssvið aðalnámskrár fyrir alla nemendur, hvort sem þeir ljúki skyldunámi á viðkomandi sviðum í 10. bekk grunnskóla eða fyrr.

Menntamálastofnun mun vinna að útfærslu á þessari undanþáguheimild í tengslum við samræmt vitnisburðarskírteini sem notað verður við útskrift úr grunnskóla í lok þessa skólaárs. Skólar munu í vor geta skráð á skírteinið að nemandi hafi lokið námi í námsgrein/námssviði fyrir 10. bekk og í athugasemdadálki sett upplýsingar um þann vitnisburð sem nemandi fékk þegar hann lauk náminu.

Þess er vænst að með þessu svigrúmi við innleiðingu á námsmatskvarðanum við lok grunnskóla skapist víðtæk sátt um innleiðinguna í skólasamfélaginu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum