Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðherra fundar með ungmennum

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna ræddi við Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra um skólamál og fleira

Á fundinum voru málefni sem brenna á grunn- og framhaldsskólanemum rædd. Má þar nefna einstaklingsmiðað nám, skóla- og námsumhverfi, kennaramat, réttinda- og jafningjafræðslu og einna helst var hópurinn að koma þeim skilaboðum á framfæri til ráðamanna að þeim beri skylda til þess að leita eftir röddum ungs fólks þegar kemur að ákvörðunartökum sem snúa að þeim.

Í frétt á heimasíðu umboðsmanns barna segir að fundurinn hafi verið „afar fróðlegur og gagnlegur og skilaði ráðgjafarhópurinn af sér formlegum tillögum til ráðherra um þær leiðir sem hann telur hentugar til þess að ná til barna og ungmenna. Er það von hópsins að ráðherra leiti oftar eftir sjónarmiðum barna og ungmenna áður en teknar eru ákvarðanir um menntamál og fylgi þannig 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, í sinni vinnu“.

Ráðgjafarhópinn skipa þau María Fema Wathne 16 ára, Þórdís Helga Ríkharðsdóttir 14 ára, Inga Huld Ármann 15 ára, Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir 15 ára, Íris Líf Stefánsdóttir 14 ára, Sólrún Elín Freygarðsdóttir 15 ára, Kristján Helgason 15 ára, Þorbjörg Arna Jónasdóttir 15 ára, María Theódóra Jónsdóttir 16 ára, Rakel Sól Pétursdóttir 13 ára og Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir 15 ára.

Tillögurnar sem ráðgjafarhópurinn lagði fram eru þessar:

· Að mennta- og menningarmálaráðuneytið leiti markvisst eftir röddum barna og ungmenna t.d. með kosningum, með því að leggja fyrir kannanir, leita í samráðsvettvang ungmennaráða eða leita til ráðgjafarhóps umboðsmanns barna þegar verið er að taka ákvarðanir eða móta stefnur sem snúa að börnum og ungmennum.

· Að mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðli að auknum áhrifum barna á sitt umhverfi t.d. með því að tryggja að skylt verði að hafa reglulegt mat á kennurum og mat á skólastarfi og skólaumhverfi.

· Að mennta- og menningarmálaráðuneyti setji fram efni sem er aðlagað að börnum og ungmennum. Það er mikilvægt að við fáum upplýsingar á því máli sem við skiljum

· Að mennta- og menningarmálaráðuneytið auki upplýsingaflæði til barna og ungmenna og vinni eftir 3. og 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjalla um hvað er börnum fyrir bestu og rétt þeirra til þess að hafa áhrif t.d. með opnum kynningarfundum um breytingar á Aðalnámskrá grunnskólanna og breytingum á einkunnakerfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum