Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á grunnskólalögum til kynningar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á grunnskólalögum eru nú til umsagnar hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til og með 29. febrúar nk. og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Með frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar með nýjum og skýrum lagaákvæðum um starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla. Breytingarnar hafa umtalsverða þýðingu fyrir réttindi nemenda og foreldra en þær ættu jafnframt að bæta stöðu þeirra sem ábyrgð bera á rekstri grunnskólanna, þ.e. sveitarfélaganna annars vegar og rekstraraðila sjálfstætt rekinna skóla hins vegar.

Frumvarpsdrögin geyma einnig tillögur um breytingar á reglum grunnskólalaga um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald, sbr. 4. gr. frumvarpsins, og um breytingar á reglum grunnskólalaga um stjórnsýslukærur, sbr. 6. gr.

Frumvarpsdrögin fela ekki í sér breytingu á því að grunnskólar eru almennt reknir á vegum sveitarfélaganna, þ.e. af hinu opinbera. Drögin fela heldur ekki í sér breytingu á því að forræði þess hvort samið verður við einkaaðila um rekstur grunnskóla er hjá sveitarfélögunum. Í drögunum felst með öðrum orðum engin afstaða til þess hvort sveitarfélag geti eða eigi að gera samning við einkaaðila um rekstur grunnskóla, ekki fremur en er að gildandi rétti.

Frumvarpsdrögin eru samhljóða tillögum nefndar sem falið var að endurskoða lög um sjálfstætt starfandi grunnskóla, en nefndin skilaði skýrslu sinni þann 16. febrúar síðastliðinn. Kallað er eftir athugasemdum við þau drög. Frestur til að gera athugasemdir við drögin er til og með 29. febrúar nk. Umsagnir sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] merkt í efnislínu: Samráð um drög að frumvarpi um sjálfstætt starfandi skóla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum