Hoppa yfir valmynd
1. mars 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráð um breytingar á aðalnámsskrá framhaldsskóla

Óskað er eftir athugasemdum og umsögnum um breytingar á kafla 10.4 Íþróttir, líkams- og heilsurækt í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ákveðið að efna til samráðs um breytingar á kafla 10.4 Íþróttir, líkams- og heilsurækt í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011. Nýr texti var settur í umsagnarferli á heimasíðu ráðuneytisins síðastliðið haust og bárust margar athugasemdir. Boðað var til fundar 29. janúar sl. með hagsmunaaðilum og þeim sem höfðu sent inn umsagnir og farið yfir athugasemdirnar og nýr texti saminn í kjölfarið.

Í gildandi námskrá hljóðar kaflinn svo: Framhaldsskólar skulu skipuleggja námsbrautir þannig að allir nemendur 18 ára og yngri stundi íþróttir – líkams- og heilsurækt. Jafnframt skulu framhaldsskólar skipuleggja námsbrautir þannig að nemendum gefist kostur á að taka íþróttaáfanga á hverri önn.

Gerð er tillaga um að kaflinn hljóði svo:

10.4 Íþróttir, líkams- og heilsurækt

Í framhaldsskólum skipar námsgreinin íþróttir, líkams- og heilsurækt mikilvægan sess í heilsuuppeldi og heilsurækt nemenda. Lykilhæfni um heilbrigði og velferð snýr að vitund nemandans um eigin ábyrgð á líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði sínu. Meginmarkmið námsgreinarinnar eru að auka skilning nemenda á mikilvægi heilbrigðs lífernis með fræðslu og að þeir tileinki sér aðferðir í heilsurækt sem leggja grunn að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðum samskiptum.

Við skipulag námsbrautalýsinga og framkvæmd skal leitast við að nemendur geti stundað íþróttir, líkams- og heilsurækt á hverri önn.

------------------------

Tillögurnar fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Veittur er frestur til að gera athugasemdir og ábendingar við tillögurnar til 22. mars næstkomandi. Ábendingar og/eða athugasemdir sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] merkt í efnislínu: Íþróttir, líkams- og heilsurækt í aðalnámskrá framhaldsskóla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum