Hoppa yfir valmynd
4. mars 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar áhöfundalögum

Alþingi hefur samþykkt þrenn ný lög um breytingar á höfundalögum og sem varða aðgengi að munaðarlausum verkum, lengri verndartíma hljóðrita, samningskvaðir og fleira
IMG_9600

Lög nr. 10/2016 um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum, um innleiðingu tilskipunar ESB um munaðarlaus verk.

Markmið laganna er að innleiða Evróputilskipun 2012/28/ESB um tiltekin leyfileg afnot af munaðarlausum verkum. Munaðarlaus eru þau verk nefnd sem njóta verndar höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar honum til að nota verkin. Lögin taka til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita og útvarpsstöðva sem veita opinbera þjónustu. Skilgreint er hvað telst vera munaðarlaust verk. Lögin veita tilteknum menningarstofnunum heimild til að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu, eftir ítarlega leit, að viðkomandi verk séu munaðarlaus.

Lög nr. 11/2016 um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum, um lengingu á verndartíma hljóðrita.

Markmið laganna er að innleiða Evróputilskipun 2011/ 77/ESB um verndartíma höfundaréttar. Með lögunum verður útreikningur á verndartíma tónverka með texta samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta haldist uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur. Einnig að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra, sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi, lengist úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Sama breyting verður á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi. Lögin fela í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli.

Lög nr. 9/2016 um breyting á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum, um uppfærslu höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir.

Markmið laganna er að færa I. kafla höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Annað markmið laganna er að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum.

Í lögunum er tekið upp breytt orðalag um hugtakið eintakagerð og jafnframt er notað orðasambandið „að gera verk aðgengileg“ í stað hugtaksins „birting“. Hugtakið á við um þá heimild sem notendur fá til nota á verkum á grundvelli samningskvaðar.

Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra (t.d. með ljósritun), skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka, til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur, í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi.

Nýju samningskvaðirnar sem voru lögfestar eru eftirfarandi:

1. Tiltekin söfn geti samið um leyfi til eintakagerðar og til að gera slík eintök aðgengileg.

2. Stofnanir geti samið um leyfi til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa.

3. Útvarpsstöðvar geti samið um leyfi til endurnýtingar á verkum úr safni sínu.

4. Almenn heimild til samninga um leyfi til nota á verkum í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum