Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskóli í tónlist

 Ríkisstjórnin hefur að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra samþykkt að settur verði á laggirnar framhaldsskóli sem býður upp á sérhæfingu í tónlist.

Skólanum er ætlað að bjóða upp á framhaldsskólanám með áherslu á  hljóðfæraleik og söng samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, þannig að nemendur ljúki  stúdentsprófi af tónlistarbraut.

 Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú í samstarfi við Ríkiskaup  að undirbúningi auglýsingar eftir aðilum til að setja á fót og reka slíkan skóla, en fyrirhugað er að gera samning  um kennslu allt að 200 nemenda sem þreyta inntökupróf. Inngöngu í skólann geta fengið nemendur annarra framhaldsskóla standist þeir inntökuprófið.

 Samkomulag um stuðning ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga

Áfram er gert ráð fyrir samkomulagi til þriggja ára milli ríkis og sveitarfélaga um aðkomu ríkisins að tónlistarnámi á vegum sveitarfélaga fyrir aðra nemendur á framhaldsstigi í tónlist en með því að hluti nemendahópsins færist til listframhaldsskólans verður Jöfnunarsjóði gert kleift að hækka framlag fyrir hverja kennslueiningu og færa nær raunkostnaði tónlistarskólanna. 

Miðað er við að skólastarf hefjist á skólaárinu 2016-2017 með innritun nemenda af landinu öllu, óháð lögheimili.

Gert er ráð fyrir að skólinn verði rekinn á forsendum laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, þ.e. á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneyti.  Lagagrundvöllur fyrir rekstur listframhaldsskóla á sviði tónlistar byggist á 12. gr. sömu laga og að námið verði viðurkennt skv. 23. gr., þar sem lokamarkmið námsins eru skilgreind á 2. – 4. hæfniþrepi, sem felur m.a. í sér tónlistarnámsbraut til stúdentsprófs.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum