Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stóraukin áhersla á útvistun efnis

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu hefur verið undirritaður.
IMG_9643

 Í nýjum samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Ríkisútvarpið ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, sem gildir til ársins 2020, er gert ráð fyrir að minnsta kosti 9% af heildartekjum félagsins sé útvistað til efnisframleiðslu innlends efnis hjá sjálfstætt starfandi framleiðendum. Fyrsta árið mun heildarverðmæti efnis frá sjálfstæðum framleiðendum nema tæpum 650 milljónum króna.

Þetta eru mun hærri fjárhæðir, að teknu tilliti til verðlags, en áskilið var í þjónustusamningum frá 2007 og 2011.

Þetta fyrirkomulag mun tryggja gæði framleidds efnis með því að nýta kosti samkeppninnar meðal sjálfstætt starfandi framleiðenda. Ríkisútvarpið mun efna til samstarfs við Kvikmyndamiðstöð Íslands og sjálfstæða framleiðendur um framleiðslu á leiknu efni..

*Fjárhæðir í þjónustusamningi 2016 byggja á tekjuáætlun Ríkisútvarpsins fyrir árið 2016.

Börn í forgrunni í nýjum þjónustusamningi

Í nýjum þjónustusamningi er lögð sérstök áhersla á að framleiðsla á fjölbreyttu, innlendu barnaefni skuli aukin á samningstímanum. Jafnframt er áskilið að þróað verði dagskrárefni fyrir börn með það að markmiði að þau læri að lesa, og jafnframt að bjóða upp á fræðsluefni á sviði vísinda og tækni.

Í þjónustusamningnum er jafnframt tekinn af allur vafi um að efni sem ætlað er börnum og ungmennum sé óhlutdrægt, og sé óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum.

Með þessum aðgerðum eru börn og ungmenni sett í forgrunn í þjónustu Ríkisútvarpsins

Ríkisútvarpið skapi sér aukna sérstöðu

Í þjónustusamningnum er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli á gildistíma samningsins leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og að færa menningarefni framar í forgangsröðun í dagskrá.

Með þessu getur Ríkisútvarpið skapað sér aukna sérstöðu á fjölmiðlamarkaði, en á sama tíma er kveðið skýrt á um að félagið skuli gæta sérstaklega að samkeppnissjónarmiðum í starfsemi sinni. Í þjónustusamningnum er einnig kveðið á um að sjónvarpsefni frá Norðurlöndum verði að lágmarki 7,5% af útsendu efni, en hlutfall sjónvarpsefnis á enskri tungu skal dragast saman um að minnsta kosti 5% á samningstímanum.

Áhersla lögð á gæði og fagmennsku

Þar að auki er lögð áhersla á að tryggja eftir fremsta megni fagleg vinnubrögð og að innra eftirlit og gæðaferlar séu virkir. Í þágu þessa er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið setji sér reglur um innra eftirlit og gæðamál, til þess að tryggja á skilvirkan hátt að félagið uppfylli þær kröfur sem lög og þjónustusamningurinn gerir til þess.

Í þágu gæða og fagmennsku er einnig gert ráð fyrir að starfsfólk Ríkisútvarpsins starfi eftir siðareglum og að fréttareglur fréttastofu verði uppfærðar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um hlutleysisskyldu fréttastofu og að ólík sjónarmið komi fram.

Þá er áskilið í þjónustusamningnum að allar lausar stöður skulu auglýstar og ráðið skal eftir opnu, faglegu og gagnsæju ráðningarferli. Jafnframt skal gætt að því að samningar við verktaka séu gerðir eftir opnu, faglegu og gagnsæju ferli.

Þar að auki er gerð krafa um að Ríkisútvarpið geti staðið skil á útgjöldum, samsetningu dagskrárefnis, með hvaða hætti hafi verið tekið á kvörtunum, niðurstöðum traustsmælinga o.fl. með upplýsingasöfnun um starfsemina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum