Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samkomulag um stuðning við tónlistarnám

Markmið samkomulagsins er að gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu.
IMG_9667

Markmið samkomulagsins er að gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu. Markmiðunum verður náð m.a. með því að ríkissjóður greiðir árlegt framlag  í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til greiðslu kennslukostnaðar nemenda í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og söng ásamt miðnámi í söng, og annarra nemenda sem þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags.

Í samkomulaginu er greint frá að mennta- og menningarmálaráðuneyti vinni nú að því að settur verði á laggirnar listframhaldsskóli með sérhæfingu í tónlist. Skólanum er ætlað að bjóða upp á viðurkennt framhaldsskólanám þar sem lokamarkmið námsins eru skilgreind á 2. – 4. hæfniþrepi, sem felur m.a. í sér tónlistarnámsbraut til stúdentsprófs. Miðað er við að skólastarf hefjist á skólaárinu 2016-2017 með innritun nemenda af landinu öllu, óháð lögheimili.

Fjárstuðningur ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga

Ríkissjóður greiðir árlegt styrktarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að fjárhæð 520 m.kr., sem renna skal til greiðslu kennslukostnaðar samkvæmt samkomulaginu. Frá og með árinu 2017  skal framlag ríkisins breytast árlega í samræmi við launaforsendur BHM og verðlagsforsendum fjárlaga í hlutföllunum laun 85% og 15% önnur gjöld. Framlag ríkisins vegna annars kostnaðar en launa skal breytast samkvæmt forsendum fjárlaga um almennar verðlagsbreytingar. Framlög ríkisins skv. samkomulaginu eru með fyrirvara um fjárheimildir til verkefnisins í fjárlögum.

 Á móti framlagi ríkisins skuldbinda sveitarfélög sig til að taka yfir verkefni frá ríkinu, sem tilgreind eru í samkomulaginu og sem nema 230 m.kr. á ársgrundvelli. Sveitarfélögin sjá til þess að framlagið renni til kennslu þeirra nemenda sem innritaðir eru í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu og uppfylla nánari skilyrði sem sett verða í lögum um tónlistarskóla. Þau eiga einnig að ábyrgjast að nemendur sem njóta framlags greiði ekki annað en skólagjöld til viðkomandi tónlistarskóla.

Mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innanríkisráðherra rituðu undir af hálfu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna.

 Samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms

 Á myndinni eru frá vinstri: Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Illugi Gunnarsson undirritaði samkomulagið f.h. innanríkisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum