Hoppa yfir valmynd
8. desember 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Yfirlýsing vegna ályktunar Félags framhaldsskólakennara um fjármál framhaldsskóla 05.12.2005

Í ályktun sem stjórn Félags framhaldsskólakennara (FF) sendi frá sér 5. desember síðastliðinn er að finna margvíslegar staðhæfingar um fjármál framhaldsskólanna sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við.

Í ályktun sem stjórn Félags framhaldsskólakennara (FF) sendi frá sér 5. desember síðastliðinn er að finna margvíslegar staðhæfingar um fjármál framhaldsskólanna sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við. Slegið er fram ýmsum fullyrðingum sem eru beinlínis rangar. Ályktanir sem síðan eru dregnar af þessum fullyrðingum standast ekki lágmarkskröfur um hlutlægni eða málefnalega umræðu.

Umstórlega vanáætlun" framlaga

Því er haldið fram í ályktuninni að fjárveitingar til framhaldsskóla í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006 séu „stórlega vanáætlaðar" eins og það er orðað. Þetta stenst ekki. Rekstrarafgangur framhaldsskólanna árið 2004, sem er síðasta ár sem gert hefur verið upp, var um 250 millj. kr. og allt útlit er fyrir að skólarnir skili einnig afgangi árið 2005. Þessi góða afkoma síðustu tveggja ára fer hins vegar að einhverju leyti til þess að greiða upp skuldir fyrri ára sem eiga sér ýmsar ástæður, m.a. aukna skólasókn nánast allra aldursflokka. Þyngra vegur þó að virkni nemendahópsins og prófþátttaka jókst örar á árunum 2001-2003 en dæmi eru til um áður. Það er fagnaðarefni.

Um ásetning stjórnvalda um fjöldatakmarkanir og sparnað

Í kjölfar staðlausra fullyrðinga um að framlög til framhaldsskóla séu stórlega vanáætluð er því haldið fram að það sé „ásetningur" fjárveitingavaldsins að koma böndum á fjölda framhaldsskólanemenda til þess að spara í rekstri skólanna. Stjórn FF gefur sér jafnframt að breytt námsskipan til stúdentsprófs hafi sama markmið.

Allir sem eitthvað hafa komið nálægt stjórnsýslu framhaldsskólastigsins vita að þessu er þveröfugt farið og að núverandi jafnt sem fyrrverandi menntamálaráðherrar hafa stöðugt mælt fyrir auknu fé og óheftu aðgengi að framhaldsskólum landsins. Það liggur einnig fyrir að á meðan nemendum fæðingarárganganna, sem vænta mátti í skólana á árunum 2000-2004 fjölgaði um 13,6%, fjölgaði ársnemendum sem skólunum var greitt fyrir um 17,3%. Þess er af einhverjum ástæðum ekki getið í ályktun stjórnar FF að í fjárlagafrumvarpi ársins 2005 voru framlög til framhaldsskólastigsins aukin um 14,9% og aftur um 11,5% 2006.

Um bóknám og verknám

Það er einnig dæmi um óvarlega og ónákvæma fullyrðingu að halda því fram að bættur hagur verknámsskólanna hafi verið á kostnað bóknámsskóla. Í fyrsta lagi eru ekki skýr mörk á milli þessara skólagerða. Í svokölluðum verknámsskólum er bóknám víðast yfir 80% ef talið er í námseiningum. Í öðru lagi liggur fyrir að bekkjaskólar, þ.e. hreinir bóknámsskólar, eru einfaldari rekstrareiningar en áfangaskólar. Nær væri að segja að sú aukning framlaga sem varð á árunum 2003-2004 hafi komið bæði bóknáms- sem verknámsskólum til góða en verið meiri hjá verknámsskólum en bóknámsskólum.

Umræða ályktunar FF um fjárlagafrumvarp ársins 2004 er sömuleiðis byggð á misskilningi. Þar segir að samkvæmt reiknilíkani hafi „vantað" 400 milljónir króna í frumvarpið. Hið rétta í þessu er að 600 milljónum var bætt við framlög til framhaldsskóla við meðferð frumvarpsins á Alþingi og þeim var ráðstafað til að mæta breytingum sem gerðar voru á reiknilíkani framhaldsskóla árið áður. Þær breytingar voru vísvitandi gerðar verknámi til hagsbóta en 200 milljónum var varið í nemendafjölgun.

Um nemendafjölda

Einnig er látið í það skína í þessari efnisgrein ályktunarinnar að árið 2004 hafi verið bil á milli 16.220 nemenda í fjárlagagerðinni og 23.000 nemenda sem Hagstofan hafi talið í skólunum og það bil hafi ekki verið brúað. Þarna virðist því haldið fram að 6.780 nemendur hafi verið vantaldir og ekki gerðir upp við skólana. Þessi málflutningur er kennarastéttinni ekki samboðinn. Þegar allt kom til alls var munur á milli þess fjölda, sem fjárlög gerðu ráð fyrir, og þess fjölda, sem var í skólunum, 295 nemendur. Þeir voru allir umfram fjárheimildir skólanna.

Góð afkoma framhaldsskóla

Í ályktun FF segir undir fyrirsögninni Halli á rekstri framhaldsskóla 4-35% að Ríkisendurskoðun hafi í úttekt á framkvæmd fjárlaga 2004 litið til afkomu 9 skóla í hallarekstri. Hér hefði að ósekju einnig mátt nefna að aðrir sjö framhaldsskólar, sem skiluðu afgangi, voru einnig til athugunar og ráðuneytið var beðið skýringa á afkomu þeirra. Ef stjórn Félags framhaldsskólakennara hefði litið til framhaldsskólanna í heild, en ekki einungis þeirra skóla er skiluðu hallarekstri

hefði fyrisögn kaflans væntanlega orðið: Afkoma framhaldsskólanna í heild batnar um nærri 3%, rekstrarafgangur rúmlega 2% á árinu 2004. Þessi staðreynd virðist hins vegar ekki henta markmiðum ályktunar FF.

Kjarni málsins er vitanlega sá að hallarekstri framhaldsskólanna hefur verið snúið við. Þessum viðsnúningi hefur tekist að ná með sameiginlegu átaki stjórnvalda og skólastjórnenda.

Mikil fjölgun nemenda

Sú fyllyrðing stjórnar Félags framhaldsskólakennara að mikil aukning hefur orðið á fjölda nemenda er vissulega rétt. Fagnar menntamálaráðuneytið þeirri þróun. Ekkert liggur hins vegar fyrir um það að nemendatala fjárlagaársins 2005 hafi verið röng, líkt og stjórn FF heldur fram.

Helstu viðfangsefnin sem menntamálaráðuneytið hefur verið að glíma við á þessum vettvangi eru þau að skólasókn allra aldurshópa hefur verið að vaxa og um leið hefur virkni (prófþátttaka) nemenda vaxið og brottfall minnkað. Á árunum 2002-2004 tókst ekki til fulls að halda í við þessa ánægjulegu þróun við áætlanagerð í tengslum við fjárlög en á þeim árum tókst þó að gera upp við skólana nemendatölurnar sem þeir höfðu heimildir fyrir skv. fjárlögum og í flestum tilfellum gott betur.

Um tölulegan samanburð

Það er ekki þessum viðfangsefnum til framdráttar að hræra saman grundvallarhugtökum í áætlanagerð eins og ársnemendum (ígildum) og fjölda skráðra nemenda eins og gert er í ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara.

Ef samræmi hefði verið í talnameðferð ályktunar kennarafélagsins hefði þetta komið fram en lítil leið er að átta sig á tölunum eins og þær eru settar fram þar sem á víxl er talað um fjölda skráðra nemenda samkvæmt tölum Hagstofunnar og ársnemendatölur fjárlagagerðarinnar sem eru önnur mælieining.

Nemendatölur fjárlaga byggjast á ígildum og er einn ársnemandi því nemi með 100% virkni. Sé miðað við 80% virkni eru því 20 þúsund skráðir nemendur hið sama og 16 þúsund „nemendaígildi" eða „ársnemendur" samkvæmt skilgreiningu fjárlaga. Líkt og áður hefur verið minnst á hefur virkni nemenda verið að aukast úr 77,7% árið 2000 í 82,6% árið 2003.

Í ályktuninni er þessu ruglað saman sitt á hvað sem gerir allan tölulegan samanburð í ályktuninni ómarktækan með öllu.

Á undanförnum árum hefur jafnt og þétt verið unnið að því að styrkja nemendaspár og forsendur áætlanagerðar sem hafa leitt til þess að mjög stutt er nú orðið á milli þess að áætlaðar nemendatölur fjárlagagerðarinnar séu rauntölur skólanna samkvæmt uppgjöri.

Aðalatriði málsins

Þegar upp er staðið liggur eftirfarandi fyrir:

  • Nemendum í framhaldsskólum hefur fjölgað hratt og samhliða því hefur virkni þeirra aukist. Þessu ber að fagna.
  • Viðvarandi hallarekstri framhaldsskólastigsins hefur verið snúið við og framhaldsskólastigið er nú rekið með rekstrarafgangi sem gerir skólum kleift að vinna á uppsöfnuðum halla og styrkja sig til framtíðar.
  • Stjórnvöld hafa brugðist við þessari þróun með því að stórauka framlög til framhaldsskólanna í samræmi við fjölgun nemenda. Á undanförnum fimm árum hafa framlög til framhaldsskólastigsins aukist um 5 milljarða króna (2002-2006).
  • Komið hefur verið til móts við aukna fjárþörf verknámsskóla án þess að skerða framlög til bóknámsskóla. Þau hafa hins vegar ekki aukist eins hratt hlutfallslega og framlög til verknámsskóla.
  • Forusta Félags framhaldsskólakennara þarf að læra að fara rétt með staðreyndir. Einungis með því móti þjónar hún hagsmunum umbjóðenda sinna og skólasamfélagsins alls.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum