Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fréttatilkynning um samkomulag menntamálaráðuneytis og Kennarasambands Íslands um tíu skref til sóknar í skólastarfi

Stjórn Kennarasambands Íslands, stjórnir félaga Kennarasambands Íslands og menntamálaráðherra hafa sameinast um tíu skref til sóknar í skólastarfi.

Stjórn Kennarasambands Íslands, stjórnir félaga Kennarasambands Íslands og menntamálaráðherra hafa sameinast um tíu skref til sóknar í skólastarfi. Samkomulagið felur í sér mörg verkefni sem þörf er á að vinna í sameiningu og sátt skólasamfélaginu til heilla.

Kennarar og ráðherra eru sammála um að ráðast í 10 verkefni sem verður að vinna samhliða og með breyttri námsskipan til stúdentsprófs enda hagsmunamál komandi kynslóða að það verkefni sé unnið á faglegan hátt til að tryggja áfram gæði náms.

Í samkomulaginu eru sett fram 10 skref til sóknar sem stjórnir Kennarasambands Íslands og menntamálaráðherra hafa ákveðið að vinna samhent að þeirri heildarendurskoðun á námi og breyttri námsskipan skólastiganna sem nú fer fram.

Meðal þeirra verkefna sem ráðist verður í er vinna í kjölfar nýrra hugmynda um framtíð kennaramenntunar og eflingu hennar, sveigjanlegri aðlögunartími framhaldsskóla til að takast á við breytta námsskipan, löggilding á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara og endurskipulagning almennrar brautar framhaldsskólanna í samhengi við eflingu náms- og starfsráðgjafar.

Námsefnisgerð verður efld á öllum skólastigum, fjar- og dreifnám skilgreint með skipulegum hætti og samstarf verður sett á fót til að vinna markvisst að því að gera starf kennara og starfsumhverfi aðlaðandi og eftirsóknarvert.

Forystumenn Kennarasambands Íslands og ráðherra munu taka saman höndum um samkomulagið í dag, fimmtudaginn 2. febrúar 2006, kl. 12.30 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

Skólastarf og skólaumbætur

-10 skref til sóknar

Kennarasamband Íslands og menntamálaráðherra vinna samhent að betra
skólakerfi með heildarendurskoðun á námi og breyttri námsskipan skólastiganna

Menntamálaráðherra og Kennarasamband Íslands eru sammála um að vinna saman að eftirfarandi verkefnum sem stefna að sveigjanlegra skólakerfi á grundvelli heildarendurskoðunar á námi og breyttrar námsskipunar skólastiganna.

 

1.            Endurskoðun laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla hefst vorið 2006. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er aukin samfella milli skólastiganna, sveigjanleiki milli og innan skólastiga og að mæta breytilegum þörfum ólíkra nemenda.  Lokamarkmiðið er betri menntun og betri námsárangur nemenda.

2.            Efling kennaramenntunar er ein helsta forsenda þess að hægt sé að þróa og styrkja íslenska menntakerfið. Nefnd um framtíð kennaramenntunar er nú að störfum og verður tekin ákvörðun um markvissa eflingu kennaramenntunar á grundvelli niðurstaðna hennar.

3.            Framhaldsskólum verður gefinn fjögurra ára aðlögunartími til að takast á við breytta námsskipan, á grundvelli heildarendurskoðunar á námi og breyttrar námsskipunar skólastiganna, út frá eigin skipulagi.

4.            Unnið verður að eflingu endurmenntunar kennara á öllum skólastigum í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa á grundvelli heildarendurskoðunar á námi og breyttrar námsskipunar skólastiganna.

5.            Starfsheiti leikskólakennara verður löggilt.

6.            Verk- og starfsnám í grunn- og framhaldsskólum verður eflt, skipulag einfaldað og hvatt til aukinnar aðsóknar í slíkt nám.

7.            Almenn braut framhaldsskólans verður endurskipulögð og efld með víðtækum hætti, náms- og starfsráðgjöf styrkt og stuðlað verður að því að áfram dragi úr brottfalli í framhaldsskólum.

8.            Námsefnisgerð allra skólastiga verður efld með nýjum lögum um Námsgagnastofnun, eflingu þróunarsjóða og námsefnisgerðarsjóðs auk aukinnar áherslu á gerð stafræns námsefnis.

9.            Fjar- og dreifnám verður skilgreint með skipulegum hætti í samræmi við gæðamat í því skyni að auka sveigjanleika skólakerfisins og fjölga valkostum.

10.        Aðilar vinna saman að því að starf  kennara og starfsumhverfi verði aðlaðandi og eftirsóknarvert.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum