Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tímabundinn flutningur skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík í embætti skólameistara Menntaskólans á Ísafirði

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fela Ingibjörgu S. Guðmundsdóttur, skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík að gegna embætti skólameistara við Menntaskólann á Ísafirði tímabundið.

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fela Ingibjörgu S. Guðmundsdóttur, skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík að gegna embætti skólameistara við Menntaskólann á Ísafirði tímabundið, frá 1. ágúst 2006 til 31. júlí 2007. Jafnframt hefur Ingibjörgu verið veitt launalaust leyfi frá embætti skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík umræddan tíma. Í fjarveru Ingibjargar hefur Oddnýju Hafberg, aðstoðarskólameistara verið falið að gegna embætti skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Haft hefur verið samráð við skólanefndir skólanna um þessar ráðstafanir.

Ingibjörg Guðmundsdóttir hefur verið skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík frá árinu 1998 og var um skeið formaður Skólameistarafélags Íslands. Hún hóf kennslustörf við Kvennaskólann á árinu 1970, fastur kennari við skólann frá 1973, yfirkennari frá janúar 1985-1997 og aðstoðarskólameistari 1987-1997.

Ingibjörg hefur verið afar farsæl í starfi skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Í ljósi erfiðrar stöðu og ágreiningsmála sem uppi hafa verið við Menntaskólann á Ísafirði undanfarin misseri telur ráðuneytið að þessi ráðstöfun, að kveðja reyndan og farsælan skólameistara til starfa við MÍ, sé skynsamleg. Miðað er við að embætti skólameistara við MÍ verði auglýst laust til umsóknar að ári og þá skipað í það frá 1. ágúst 2007 til 5 ára, eins og lög mæla fyrir um.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum