Hoppa yfir valmynd
21. september 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samkomulags um aukið samstarf Íslands og Kína á sviði æðri menntunar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Zhou Ji menntamálaráðherra Kína undirrituðu á fundi í Þjóðminjasafninu í dag samkomulag um aukið samstarf á sviði æðri menntunar.
Undirritun samkomulags um aukið samstarf Íslands og Kína á sviði æðri menntunar
Samkomulag um aukið samstarf Íslands og Kína á sviði æðri menntunar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Zhou Ji menntamálaráðherra Kína undirrituðu á fundi í Þjóðminjasafninu í dag samkomulag um aukið samstarf á sviði æðri menntunar.

Samkomulagið felur í sér í fyrsta lagi að yfirvöld í löndunum tveimur muni eiga með sér samstarf um gagnkvæma viðurkenningu á námi og prófgráðum, í öðru lagi að hvatt verði til þess að háskólar í löndunum tveimur efni til samstarfs um nemendaskipti og sameiginlegar prófgráður og í þriðja lagi að íslensk og kínversk yfirvöld muni stuðla að því að bæta aðstöðu til rannsókna og náms á kínversku og íslensku í löndunum tveimur. Þetta felur m.a. í sér tækifæri til að komið verði á fót hér á landi sérstakri kínverskri menningarstofnun sem kennd er við Konfúsíus, en slíkar menningarstofnanir eru starfræktar víða um lönd.

Undirritun samkomulagsins fór fram í lok fundar menntamálaráðherra með Chen Zhili, varaforsætisráðherra Kína og æðsta yfirmanni mennta- og vísindamála í Kína. Þess má geta að fundurinn fór fram réttri viku eftir fund þeirra í Beijing þar sem grunnur var lagður að því samkomulagi er nú var undirritað.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum