Hoppa yfir valmynd
10. október 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimild fyrir lesblinda nemendur að sleppa lesskilningshluta samræmdra prófa í íslensku í 4. og 7. bekk í grunnskólum haustið 2006

Telji foreldrar og viðkomandi kennarar að lesblindir nemendur í skólanum muni bera skaða af því að taka lesskilningshluta íslenskuprófsins með núverandi fyrirkomulagi er þeim heimilt að sleppa þeim hluta prófsins.

Í kjölfar óska nokkurra foreldra og kennara um upplestur fyrir lesblinda nemendur á lesskilningshluta samræmdra prófa í íslensku í 4. og 7. bekk haustið 2006 hefur menntamálaráðherra beint því til Námsmatsstofnunar að eftirfarandi verði komið á framfæri við alla grunnskóla: Telji foreldrar og viðkomandi kennarar að lesblindir nemendur í skólanum muni bera skaða af því að taka lesskilningshluta íslenskuprófsins með núverandi fyrirkomulagi er þeim heimilt að sleppa þeim hluta prófsins. Heimildin er bundin við samræmd próf í íslensku í 4. og 7. bekk haustið 2006.

Í þessu sambandi bendir menntamálaráðuneyti á að upplestur á lesskilningshluta prófs í íslensku mælir ekki lesskilning heldur hlustun sem einnig er hluti af íslenskuprófinu. Ekki er vitað til þess að foreldrar og kennarar almennt leggist gegn því að lagt sé mat á lestrarfærni nemenda sem glíma við lestrarörðugleika með því að þeir þreyti lesskilningshluta prófsins.

Jafnframt er hér tilkynnt að menntamálaráðherra mun skipa nefnd til að fjalla um málefni lesblindra nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Skal nefndin m.a. skila tillögum um hvernig haga skuli próftöku lesblindra nemenda á samræmdum prófum og um heimildir til undanþága og frávika. Í ráðuneytinu hefur á undanförnum mánuðum farið fram undirbúningsvinna að stefnumörkun í málefnum lesblindra nemenda.

Á vef menntamálaráðuneytis má finna fréttatilkynningu, dags. 9. október 2006, um hvernig nú er staðið að stuðningi við nemendur sem fá frávik við töku samræmdra próf, þ.m.t. lesblinda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum