Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2006

Fyrir ellefu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert.

Fyrir ellefu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert. Menntamálaráðuneyti hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það, í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
Vert er að vekja athygli á að á næsta ári verða 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og verður þess minnst víða.

Dagsins er minnst með margvíslegu móti. Hér verða nefnd ýmis dæmi um viðburði o.fl. nú í ár.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Á degi íslenskrar tungu, fimmtudaginn 16. nóvember, verður hátíðardagskrá þar sem menntamálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2006 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls. Dagskráin verður í sal Hjallaskóla, Álfhólsvegi 120, Kópavogi kl. 16-17. Tónlistarflutningur í umsjón Tónlistarskóla Kópavogs. Upplestur: Hjalti Vigfússon og Sólveig Óskarsdóttir, verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Vefur um Jónas Hallgrímsson
Opnaður verður vefur um Jónas Hallgrímsson hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.
Á vefnum verður hægt að lesa ljóð og sögur Jónasar og skoða myndir af handritum hans auk þess sem gerð er grein fyrir vísindastörfum hans.

Námsgagnastofnun
Námsgagnastofnun hefur útbúið sérstakt veggspjald í tilefni af degi íslenskrar tungu og verður því dreift í alla grunnskóla. Vakin er athygli á því hversu frjótt orðmyndunarmál íslenskan er og auðvelt að smíða ný orð úr orðum og orðrótum sem fyrir eru í málinu. Nemendur eru hvattir til að mynda nokkur íslensk orð í stað enskra tökuorða sem eru algeng í talmáli.

Tölvuorðasafn á vefnum
Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, opnar leitaraðgang að 4. útgáfu Tölvuorðasafns á vefsetri Skýrslutæknifélags Íslands, www.sky.is. Ráðherra tók á móti fyrsta eintaki 4. útgáfu þegar hún var gefin út í bókarformi í ágúst á síðasta ári. Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins tók saman efni í bókina eins og fyrri útgáfur. Útgefandi fjórðu útgáfunnar er Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Leitaraðagangur er opinn öllum. Það er von orðanefndarinnar að þessi leitaraðgangur reynist vel öllum sem nota tölvur og fást við upplýsingatækni, allt frá byrjendum til sérfræðinga. Orðasafnið er ómissandi þeim sem vilja tala og skrifa á íslensku um upplýsinga- og tölvutækni.

Héraðsbókasafnið á Hvammstanga
Sérstök dagskrá verður kl. 16 á Héraðsbókasafninu Höfðabraut 6, Hvammstanga. Nemendur í Tónlistarskóla Vestur-Húnavatnssýslu leika á hljóðfæri og eldri borgarar lesa upp úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.

Spurningakeppni á Austurlandi
Í tilefni af degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember nk. verður haldin spurningakeppni milli 10. bekkinga við grunnskóla á Austurlandi. Skólarnir sem taka þátt í þessu eru: Grunnskólinn á Djúpavogi, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Eiðum ásamt Vopnafjarðarskóla. Þessi keppni er í anda þáttarins „Orð skulu standa“ á rás 1. Keppt verður til úrslita í Miklagarði, Vopnafirði, 16. nóvember kl. 17:15

Slettur, slangur og staða íslensks hversdagsmáls. Á degi íslenskrar tungu í Háskólanum á Akureyri flytur
Finnur Friðriksson aðjunkt erindi er nefnist Slettur, slangur og staða íslensks hversdagsmáls. Erindið verður flutt 16. nóvember kl. 16.15 í stofu 14 við Þingvallastræti 23.

Njála lesin á Njáluslóðum. Á degi íslenskrar tungu lesa nemendur 10. bekkjar Hvolsskóla í Rangárþingi eystra Brennu-Njáls sögu í samstarfi við Sögusetrið á Hvolsvelli. Lesturinn hefst kl. 7.30 að morgni og lesa nemendur 10. bekkjar úr sögunni til skiptis fram á kvöld. Upplesturinn fer fram í sal skólans. Áætlað er að lestrinum ljúki um kl. 22.00. Öðru hverju verður gert hlé á upplestrinum og verður þá meðal annars boðið upp á söngatriði og ljóðaflutning. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kemur í heimsókn kl. 10.00 en dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur að frumkvæði hans sem menntamálaráðherra. Nemendur Hvolsskóla hvetja alla þá sem hafa tækifæri til að heimsækja skólann þennan dag.Njála lesin á Njáluslóðum.

Dagur íslenskrar tungu í Háskóla Íslands
Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur heldur erindi í tilefni af degi íslenskrar tungu kl. 11:40 í stofu 311 í Árnagarði.

Dagur íslenskrar tungu í Kennaraháskóla Íslands
Andri Snær Magnason rithöfundur heldur erindi í hádeginu og að auki verður hleypt af stokkunum ljóðasamkeppni meðal nemenda KHÍ sem hefur fengið heitið Ljóð á tungu - ljóð um tungu.

Dagur íslenskrar tungu í Reykjavíkurakademíunni
Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, kl. 14:00 mun menntamálaráðherra heimsækja Reykjavíkurakademíuna í JL-húsinu, Hringbraut 121, 4. hæð, og opna gagnvirkan kennsluvef, réttritun.is, til notkunar í íslenskukennslu og námi. Af því tilefni verður efnt til dagskrár í Reykjavíkurakademíunni þar sem kynnt verða fleiri verkefni sem snerta íslenska tungu.

Vefurinn rettritun.is, sem Anton Karl Ingason og Skúli Bernhard Jóhannsson hafa þróað, gefur nemandanum handhægar og hagkvæmar leiðbeiningar og fer vélrænt yfir verkefni hans. Að þeim loknum veitir hann upplýsingar um stöðu nemandans og dregur fram þau atriði og þær reglur sem hann þarf að kynna sér betur. Þannig léttir vefurinn af kennaranum tímafrekri og ófrjórri handavinnu. Vefinn er einnig hægt að nota í sjálfsnámi. Hann er lagaður að margvíslegum þörfum einstaklinga, m.a. er tekið sérstakt tillit til þarfa lesblindra og nemenda með annað móðurmál en íslensku.

Dagskráin í Reykjavíkurakademíunni verður þessi:
1. Kynning á störfum fræðimanna í RA á sviði íslenskrar tungu og bókmennta.
2. Menntamálaráðherra opnar vefinn réttritun.is og höfundar hans kynna hann.
3. Anna Guðrún Júlíusdóttir og Sigríður Ólafsdóttir kynna Kötlu, vef fyrir íslenskukennslu innflytjendabarna.
4.  Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir: Hvernig voru samræmdu stúdentsprófin í íslensku?
5.  Kynning á verkefninu „Handritin heim“.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Bókagjöf bókasafna
Borgarbókasafn Reykjavíkur, Bókasafn Seltjarnarness og Bókasafn Mosfellsbæjar ætla í samstarfi við heilsugæslustöðvarnar og með styrk frá Mjólkursamsölunni að gefa börnum í þessum bæjarfélögum bókasafnsskírteini ásamt bókinni Stafrófskver eftir Sigrúnu og Þórarinn Eldjárn en bókin hefur verið endurútgefin af þessu tilefni.

Aðalmarkmið þessa tveggja ára tilraunaverkefnis er að efla læsi barna og áhuga á bókum og að kynna fyrir þeim bókasafnið í þeirra hverfi. Gott aðgengi að úrvali bóka er mikilvægt bæði fyrir börn og foreldra. Í upplýsingasamfélagi nútímans er nauðsynlegt að vera vel læs. Rannsóknir sýna að barn sem mikið er lesið fyrir á síðar meir auðveldara með nám. Bókasöfnin í þessum þremur bæjarfélögum hafa undanfarin ár haft mikið samstarf sín á milli.

Fyrstu bækurnar verða afhentar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember kl. 15 í aðalsafni Borgarbókasafns og taka börn á leikskólanum Dvergasteini við þeim. Þá verður stutt dagskrá af þessu tilefni.

Félag íslenskra fræða
Sigurður Konráðsson, prófessor í íslensku við Kennaraháskóla Íslands, heldur erindi í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3, kl. 20.00 sem hann nefnir „Vanræksla“: Hvers á íslenska að gjalda?

Edinborgarhúsið á Ísafirði – fjölbreytileiki íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu verður haldinn hátíðlegur  fimmtudaginn 16. nóvember í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Umfjöllunarefnið er fjölbreytileiki íslenskrar tungu.  Salbjörg Jósepsdóttir og Ólafur Bjarni Halldórsson  hafa sett saman dagskrána að þessu sinni og mun Ólafur flytja erindi sem hann nefnir „Við viljum volla“. Þá munu ungir söngnemar Listaskólans flytja lög undir stjórn kennara síns Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur.  Hrafnhildur Hafberg menntaskólakennari flytur ásamt nemendum sínum  einþáttung og tveir grunnskólanemar lesa ljóð.  Dagskráin hefst kl 20.30. 

Ljóðatónleikar Söngskólans í Reykjavík
Söngskólinn í Reykjavík tók forskot á sæluna og hélt upp á dag íslenskrar tungu með ljóðatónleikum þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20.00. Nemendur ljóða- og aríudeildar skólans fluttu ýmis ljóð erlendra tónskálda við þýðingar Þorsteins Gylfasonar. Einnig voru flutt nokkur sönglög Þorsteins sem hann gerði við ljóð Tómasar Guðmundssonar.

Leikjavefurinn
Á Leikjavefnum eru margir leikir sem henta vel til notkunar á degi íslenskrar tungu. Má þar t.d. nefna flokk um orðaleiki, leiki til að finna málshátt, búa til orð, safna orðum o.s. frv. http://www.leikjavefurinn.is/

Leikskólar - dæmi
Samverustund á sal í tilefni dagsins. Unnið sérstaklega með íslenskt mál alla vikuna á undan deginum. Rætt um skáldið Jónas Hallgrímsson. Börnin læra vísur og söngva og búa til leikrit út frá ljóðum eða sögum Jónasar. Sérstakur bókadagur haldinn.

Stóra upplestrarkeppnin
Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember er formlegur upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar á hverju hausti í grunnskólum landsins.

Vefur dags íslenskrar tungu er: http://www.mrn.stjr.is/malaflokkar/Menning/dit
Menntamálaráðuneyti hefur falið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2006.
Nánari upplýsingar veitir Ágústa Þorbergsdóttir, [email protected]



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum