Hoppa yfir valmynd
13. mars 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úthlutun styrkja til íslenskukennslu útlendinga á vorönn 2007

Menntamálaráðuneytið hefur að tillögu verkefnisstjórnar, sem í sitja fulltrúar menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, úthlutað 90 milljónum króna í styrki til námskeiðahalds í íslensku fyrir útlendinga.

Menntamálaráðuneytið hefur að tillögu verkefnisstjórnar, sem í sitja fulltrúar menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, úthlutað 90 milljónum króna í styrki til námskeiðahalds í íslensku fyrir útlendinga. Veittir eru styrkir til 60 aðila til að halda námskeið fyrir samtals 3.360 nemendur að þessu sinni. Ráðuneytið auglýsti í janúar sl. styrki til námskeiða í íslensku er fram færu fyrri hluta árs með umsóknarfresti til 2. febrúar sl. Í allt sóttu yfir 70 fyrirtæki og fræðsluaðilar um ríflega 144 m.kr. til að halda námskeið fyrir rúmlega 4.600 útlendinga. Ekki reyndist unnt að koma til móts við ítrustu óskir umsækjenda.

Ríkisstjórnin ákvað hinn 10. nóvember sl. að veita 100 m.kr. til íslenskukennslu fyrir útlendinga árið 2007. Ákvörðun þessi byggði á hugmyndum þar sem miðað var við að nemendur gætu orðið 1.000 til 2.000 á ári næstu árin, að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs næmi u.þ.b. 75%. Áætlað var að kostnaður vegna námskeiðahalds gæti numið um 70 m.kr. árið 2007, um 172-305 m.kr. árið 2008 og um 162-297 m.kr. árið 2009. Áhersla var lögð á að kostnaður við tillögurnar væri vitanlega háður því að mikil óvissa væri um hversu margir útlendingar myndu sækjast eftir því að læra íslensku. Bent var á að eðlilegt mætti telja að fleiri en hið opinbera deildu kostnaði en að rétt þætti að vara við að ætla þeim sem sækja námið að bera mikinn kostnað af því.

Athygli vekur hversu mikill áhugi er á íslenskukennslu hjá útlendingum og fyrirtækjum eins og glöggt kemur fram í fjölda umsókna. Undantekningarlítið standa hæfir kennsluaðilar, er standast kröfur um aðstöðu, námsgögn og menntun kennara, að umsóknunum.

Átak í íslenskukennslu fyrir útlendinga er umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni. Auk styrkveitinga til námskeiða er vinna nú hafin á vegum menntamálaráðuneytisins við undirbúning námskrárgerðar og eftirlits með gæðum íslenskukennslunnar og til eflingar námsefnisgerðar og menntunar kennara. Er þess vænst að sem flestir aðilar er mál þetta varðar, starfsmenntasjóðir, stéttarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög o.fl. leggist á eitt ásamt stjórnvöldum og veiti sem mestan stuðning til námskeiðahalds í íslensku fyrir útlendinga.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum