Hoppa yfir valmynd
4. maí 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun í framhaldsskóla 2007

Innritun í framhaldsskóla fer fram dagana 14. maí til 11. júní 2007. Þann 14. maí verður opnað fyrir rafræna innritun á skólavef menntamálaráðuneytis, menntagatt.is.

Innritun í framhaldsskóla fer fram dagana 14. maí til 11. júní 2007. Þann 14. maí verður opnað fyrir rafræna innritun á skólavef menntamálaráðuneytis, menntagatt.is. Allar umsóknir um nám í dagskóla eru rafrænar. Sótt er um á netinu og berast umsóknirnar beint til upplýsingakerfa framhaldsskólanna.

Nemendur í 10. bekk grunnskóla fá bréf með leiðbeiningum frá menntamálaráðuneyti ásamt veflykli sem veitir þeim persónulegan aðgang að innritun í framhaldsskóla. Forráðamenn nemenda 10. bekkjar fá einnig bréf frá ráðuneytinu með upplýsingum um innritunina. Til að sækja um er hægt að nýta allar tölvur með netaðgangi, til dæmis í grunn- og framhaldsskólum. Umsækjendur sem luku grunnskólanámi árið 2006 eða fyrr þurfa að sækja sér veflykil á menntagatt.is. Nemendum sem koma erlendis frá er einnig bent á að setja sig í samband við þá skóla sem þeir hafa áhuga á að sækja um.

Við útfyllingu umsóknar er framhaldsskóli valinn ásamt skólum til vara, sem og námsbraut og önnur þjónusta sem er í boði í einstökum skólum. Nemendur 10. bekkjar geta breytt eða afturkallað umsóknir allt þar til lokað verður fyrir skráningu á miðnætti mánudaginn 11. júní 2007. Frá og með 15. júní geta umsækjendur opnað umsóknir sínar aftur og fylgst með afgreiðslu þeirra. Aðrir umsækjendur um framhaldsskóla geta hins vegar sent inn sína umsókn þegar þeir kjósa á umræddu innritunartímabili og geta ekki breytt henni eða afturkallað eftir það. Geti skóli ekki orðið við umsókn verður hún send í skóla sem nemandi valdi til vara. Þegar allar umsóknir hafa verið afgreiddar fá nemendur bréf með upplýsingum um afgreiðsluna. Nemendur þurfa að staðfesta veitta skólavist með greiðslu innritunargjalds.

Rafræn innritun auðveldar yfirsýn yfir eftirspurn nemenda eftir skólum og námsbrautum. Fyrr verður ljóst hverjar óskir nemenda eru og því auðveldara að bregðast við þeim. Þjónusta við nemendur verður betri og nýir möguleikar opnast til að tengja innritunina námsráðgjöf og öðrum þáttum skólastarfsins í grunnskólunum í samvinnu við framhaldsskólana.

Innritun í nám í kvöldskóla, fjarnám og annað nám en í dagskóla verður með hefðbundnum hætti. Innritun fer fram í þeim framhaldsskólum sem hafa slíkt nám í boði. Skólarnir auglýsa umsóknarfrest sjálfir og leggja til umsóknareyðublöð. Umsækjendum er bent á að hafa samband við viðkomandi skóla hyggist þeir stunda nám í kvöldskóla eða fjarnámi. Upplýsingar um framhaldsskóla má finna á menntagatt.is.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum