Hoppa yfir valmynd
4. maí 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Styrkir til framhaldsnáms við háskóla í Japan

Japanska ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita Íslendingum Mombukagakusho (MEXT: mennta-, menningar-, íþrótta-, vísinda- og tæknifræðiráðuneytið) styrk til framhaldsnáms við háskóla í Japan.

Japanska ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita Íslendingum Mombukagakusho (MEXT: mennta-, menningar-, íþrótta-, vísinda- og tæknifræðiráðuneytið) styrk til framhaldsnáms við háskóla í Japan. Styrkurinn er veittur til tveggja ára fyrir þá sem hefja nám í apríl 2008 en til 18 mánaða fyrir þá sem kjósa að hefja nám í október 2008. Flugfargjöld og skólagjöld verða greidd og fá styrkþegar mánaðarlega greiðslu, 170.000 yen sem er nálægt 90.000 krónum, auk fjárupphæðar við komuna til Japans.

Umsækjendur þurfa að hafa lokið B.A. eða B.S. gráðu áður en námið hefst og geta aðeins sótt um nám í sínum sérgreinum eða á skyldum sviðum. Skilyrði er að þeir séu fæddir 2. apríl 1973 eða síðar. Upplýsingar um skóla og prófessora má fá hjá Sendiráði Japans á Íslandi svo og allar upplýsingar um nánari skilyrði.

Sendiráð Japans í samvinnu við menntamálaráðuneytið á Íslandi mun sjá um fyrsta úrtak umsækjenda. Lokaákvörðun verður svo tekin af MEXT í Japan.

Umsóknir þurfa að berast til Sendiráðs Japans, Laugavegi 182, 105 Reykjavík, í síðasta lagi 15. júní 2007 en umsóknir má nálgast hjá sendiráðinu eða á http://www.studyjapan.go.jp/en/index.html. Þeir umsækjendur sem koma til greina verða boðaðir í viðtal til sendiráðsins í lok júní eða byrjun júlí 2007.

Allar frekar upplýsingar eru veittar í Sendiráði Japans á [email protected] og í síma 510-8600.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum