Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður Flugminjanefndar

Menntamálaráðherra skipaði í maí 2006 nefnd til að skoða kosti þess að stofna og starfrækja safn um flugsögu og flugminjar á Íslandi.

Menntamálaráðherra skipaði í maí 2006 nefnd til að skoða kosti þess að stofna og starfrækja safn um flugsögu og flugminjar á Íslandi.

Nefndinni var falið að sinna eftirfarandi verkefnum sérstaklega:

  • Kanna hvaða heimildir eru til um íslenska flugsögu og hvaða skráning hefur farið fram á íslenskum flugminjum.
  • Safna saman upplýsingum um þær flugminjar s.s. flugvélar, flök flugvéla, flugvallarbúnað, ljósmyndir, kvikmyndir og aðrar minjar sem nýtast myndu við stofnun safns af þessum toga.
  • Kanna þau söfn sem nú þegar eru í rekstri þ.e. Flugminjasafn Íslands á Akureyri og Flugminjasafnið á Hnjóti og koma með tillögur um hvernig megi samræma þennan rekstur.
  • Kanna hvaða rekstrarform myndi henta slíku flugminjasafni og hvaða aðilar gætu komið að rekstrinum s.s. atvinnulíf, hagsmunaaðilar, einstaklingar, sveitarfélög og frjáls félagasamtök.
  • Kanna möguleika á erlendu samstarfi.
  • Meta kosti varðandi staðsetningu safnsins og tengingu þess við landsbyggðina, þá ekki síst með tilliti til þeirra safna sem þegar eru starfrækt.

Eftirfarandi voru skipuð í nefndina:

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, formaður nefndarinnar, Tómas Dagur Helgason, þjálfunarflugstjóri og formaður Þristavinafélagsins, Jón Kristinn Snæhólm, aðstoðarmaður borgarstjóra, Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, Haukur Hauksson, varaflugmálastjóri og Guðjón Arngrímsson, kynningarstjóri Icelandair Group. Starfsmaður nefndarinnar var Rakel Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs

Flugminjanefnd telur mikilvægi flugminjasafns á Íslandi ljóst, sér í lagi þar sem flugsaga er stór þáttur í menningu landsins, en upphaf flugsamgangna markaði tímamót hér á landi hvað varðar samskipti við aðrar þjóðir. Bent er á, í þessu samhengi, að flestar nágrannaþjóðir okkar hafa vegleg flugsöfn, en lítið hefur verið hugað að varðveislu þessa þáttar í menningu okkar hér á landi.

Nefndin leggur til að stofnað verði Flugminjasafn Íslands sem samnefnari sjálfstæðra flugsafna á Íslandi með sameiginlegri stofnskrá sem tryggi samstarf, yfirsýn og heildarstefnumótun.

Flugsafnið á Akureyri er að mati nefndarinnar eina safnið sem uppfyllir sem stendur skilyrði sem aðildarsafn að Flugminjasafni Íslands. Önnur söfn gætu síðar einnig orðið aðilar, svo sem fyrirhuguð flugsöfn í Reykjavík og á Suðurnesjum. Einnig verði formlegt samstarf við önnur söfn, fyrirtæki og félög sem sinna flugsögunni með einum eða öðrum hætti. Fyrirmynd að þessu er stofnun samtaka sjóminjasafna á Íslandi.

Skýrslu nefndarinnar má nálgast á vef menntamálaráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum