Hoppa yfir valmynd
12. júní 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rafræn innritun í framhaldsskóla 2007

Um 4.200 af 4.500 nemendum 10. bekkjar grunnskóla höfðu sótt um skólavist á haustönn 2007 þegar umsóknarfrestur rann út.

Umsóknarfrestur um nám í dagskóla á haustönn 2007 rann út í gær, mánudaginn 11. júní.

Um 4.200 af 4.500 nemendum 10. bekkjar grunnskóla höfðu þá sótt um skólavist á haustönn 2007. Flestar umsóknir bárust Verzlunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Menntaskólanum í Reykjavík og Kvennaskólanum. Þessir skólar þurfa að vísa frá rúmlega 400 nemendum sem höfðu valið þá sem fyrsta kost. Þeir eiga þó vísa vist í öðrum skólum þar sem pláss er nægilegt í framhaldsskólunum. Þá sóttu um 3.000 eldri nemendur, sem annað hvort óska eftir að skipta um skóla eða hefja nám að nýju, um skólavist í dagskóla. Hvort tveggja er í takt við áætlanir ráðuneytisins.

Afgreiðsla umsókna

Frá og með 15. júní kl. 18:00 geta umsækjendur opnað umsóknir sínar aftur og fylgst með afgreiðslu þeirra. Þá ætti afgreiðslu umsókna um aðalskóla og varaskóla eitt að vera því sem næst lokið. Afgreiðslu allra umsókna á að vera lokið fyrir miðnætti þriðjudaginn 19. júní. Fái umsækjandi úr 10. bekk ekki inni í þeim skóla sem hann valdi berst umsókn hans til ráðuneytisins sem þá leitar úrræða í samráði við viðkomandi. Landið er eitt innritunarsvæði en að öðru jöfnu er litið svo á að framhaldsskólar hafi skyldur við nemendur sem eiga lögheimili í nágrenni þeirra. Skólar senda svarbréf til umsækjenda sem fengið hafa skólavist, en nemendur þurfa að staðfesta veitta skólavist með greiðslu innritunargjalds.

Ávinningur

Rafræn innritun auðveldar ráðuneytinu að fylgjast með eftirspurn nemenda eftir skólum og námsbrautum. Fyrr verður ljóst hverjar óskir nemenda eru og því auðveldara að bregðast við þeim. Jafnframt verður yfirsýn ráðuneytisins um námsframboð og eftirspurn mun skýrari og auðveldar því að rækja hlutverk sitt og tryggja þannig öllum nemendum skólavist.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum