Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bráðaaðgerðir í bættri þjónustu við blinda og sjónskerta

Í maí sl. setti menntamálaráðherra á laggirnar framkvæmdanefnd með fulltrúum frá menntamála-, félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Blindrafélaginu, sem hafði það hlutverk að leggja mat á, gera áætlun um og annast framkvæmd þeirra tillagna sem gerðar höfðu verið um bætta þjónustu við blinda og sjónskerta, sérstaklega í tengslum við menntunarmöguleika, ráðgjafaþjónustu, grunn- og símenntun starfsmanna og þróun námsgagna.

Í maí sl. setti menntamálaráðherra á laggirnar framkvæmdanefnd með fulltrúum frá menntamála-, félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Blindrafélaginu, sem hafði það hlutverk að leggja mat á, gera áætlun um og annast framkvæmd þeirra tillagna sem gerðar höfðu verið um bætta þjónustu við blinda og sjónskerta, sérstaklega í tengslum við menntunarmöguleika, ráðgjafaþjónustu, grunn- og símenntun starfsmanna og þróun námsgagna.

Framkvæmdanefndin er langt komin með gerð tillögu að framkvæmdaáætlun og er stefnt að því að hægt verði að leggja hana fram í lok sumars.

Þrátt fyrir að starfi nefndarinnar sé ekki lokið hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að brýnt sé að bæta þjónustu við blinda og sjónskerta án tafar, þar sem komið hefur í ljós að þörf fyrir aðstoð er langt umfram það sem hægt er að mæta við núverandi aðstæður.

Til viðbótar þarf að bregðast við því að því fagfólki sem þegar er til staðar fer fækkandi á ákveðnum þjónustusviðum, m.a. vegna tímabundinna námsleyfa.

Þannig er fyrirsjáanlegt að í haust verði einungis tveir starfsmenn á sviði blindrakennslu / kennsluráðgjafar og þjálfunar í umferli og athöfnum dagslegs lífs til að aðstoða 1.500 manna hóp blindra og sjónskertra, en þar af eru 138 einstaklingar 20 ára og yngri.

Til að bregðast við þessum vanda hefur verið ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða til að hægt verði að halda uppi og auka þjónustu við blinda og sjónskerta. Var tillaga þessa efnis samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun en í henni felst:  

1. Stöður þriggja blindrakennara / kennsluráðgjafa verða settar á laggirnar strax, til að sinna ráðgjöf við blinda   og sjónskerta nemendur og kennara og starfslið skóla þeirra. Þeir starfi á öllum skólastigum og um allt land. Gera þarf ráð fyrir að a.m.k. tveir ráðgjafanna leggi stund á fjarnám frá ágúst 2007, til að afla sér viðeigandi sérhæfingar.
2.  Þrjár nýjar stöður umferlis- og ADL þjálfa verða settar á laggirnar strax undir starfsemi Sjónstöðvar Íslands. Þegar er til ein slík staða hjá Sjónstöð sem ekki hefur tekist að manna vegna skorts á fagmenntuðu fólki.

Vegna þessa verða ráðnir fjórir einstaklingar til starfa hjá Sjónstöðinni og sendir strax í september í nám erlendis til að afla sér viðeigandi sérhæfingar.

Með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur verið tekið mikilvægt skref til að efla þjónustu við blinda og sjónskerta. Störfin verða auglýst á næstu dögum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum