Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Blaðamannafundur í Kiel vegna undirbúnings að raðtilnefningu menningarminja frá tímum víkinga á heimsminjaskrá UNESCO

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra þýska sambandslandsins Slésvík-Holstein og Caroline Schwarz, menningarmálaráðherra Slésvíkur-Holstein, héldu á mánudag blaðamannafund í Kiel í tilefni af því að hafinn er undirbúningur að raðtilnefningu menningarminja frá tímum víkinga á heimsminjaskrá UNESCO.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra þýska sambandslandsins Slésvík-Holstein
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra þýska sambandslandsins Slésvík-Holstein

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra þýska sambandslandsins Slésvík-Holstein og Caroline Schwarz, menningarmálaráðherra Slésvíkur-Holstein, héldu á mánudag blaðamannafund í Kiel í tilefni af því að hafinn er undirbúningur að raðtilnefningu menningarminja frá tímum víkinga á heimsminjaskrá UNESCO.

Verkefnið er samstarfsverkefni margra þjóða en auk Íslands og Slésvík-Holstein koma Danmörk og Svíþjóð að verkefninu auk þess sem stjórnvöld í Kanada og Noregi hafa fylgst með framvindu mála og verða hugsanlega aðilar að ferlinu.

Vinna að tilnefningu er langt og strangt ferli, sem krefst mikils og náins samstarfs milli þátttökulandanna. Öll löndin eiga jafnmikið í verkefninu þó svo reglur UNESCO kveði á um að eitt ríki þurfi að bera ábyrgð á verkefninu og afhenda tilnefningarskjölin fyrir hönd allra hinna.

Mun Ísland sinna því hlutverki að vera ábyrgðaraðili verkefnisins en frumkvæði að raðtilnefningunni átti Slésvík-Holstein, sem í nokkur ár hefur unnið að undirbúningi þess að tilnefna Haithabu og Danewirke á heimsminjaskrána.

Ísland hefur unnið að verkefninu með Þjóðverjum um nokkurra ára skeið og á fundi ríkisstjórnarinnar 10. ágúst í fyrra var tekin ákvörðun um að Ísland yrði aðili að hinni alþjóðlegu tilnefningu. Jafnframt var ákveðið að Ísland yrði það aðildarríki heimsminjasamningsins, sem tæki að sér að afhenda tilnefningarskjölin heimsminjaskrifstofu UNESCO þegar þar að kæmi.

Heimsminjanefnd Íslands hefur fengið það hlutverk að stýra verkefninu fyrir okkar hönd og vinnur hún nú að undirbúningi málþings og fundar á Íslandi í apríl þar sem kallaðir verða til fulltrúar þeirra landa, sem taka þátt í verkefninu.

Stefnt er að því að tilnefning vegna víkingaminja verði afhent UNESCO fyrir 1. febrúar 2010.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum