Hoppa yfir valmynd
18. mars 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur um ferðasjóð íþróttafélaga

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ undirrituðu í dag samning þar sem Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands er formlega falin umsjón og umsýsla með Ferðasjóði íþróttafélaga.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
isi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ undirrituðu í dag samning þar sem Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands er formlega falin umsjón og umsýsla með Ferðasjóði íþróttafélaga.

Á fundi ríkisstjórnar Íslands í mars 2007 var samþykkt að koma á fót ferðasjóði íþróttafélaga innan vébanda ÍSÍ til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðherra fól að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með stofnun ferðasjóðsins eru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar.

Með samningnum er komið á fót sjóði sem kemur til móts við íþróttafélög vegna kostnaðar þeirra af ferðalögum innanlands, sérstaklega þeirra sem eiga um langan veg að fara til þess taka þátt í viðurkenndum mótum. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að öruggum ferðamáta íþróttafólks.

Framlag ríkisins í sjóðinn er alls 180 m.kr. á árunum 2007- 2009 og skiptist á eftirfarandi hátt: 30 m.kr. fyrir árið 2007, 60 m.kr. fyrir árið 2008 og 90 m.kr. fyrir árið 2009.

Opnað var fyrir umsóknir í sjóðinn 10. desember 2007 og rann umsóknarfrestur út þann 10. janúar s.l.

Alls bárust umsóknir frá 138 íþróttafélögum, frá öllum héraðssamböndum ÍSÍ. Sótt var um styrk fyrir 21 íþróttagrein. Heildarkostnaður umsókna var um 260 milljónir króna en heildarkostnaður styrkhæfra umsókna var ríflega 223 milljónir króna.

Í ljósi þess að um fyrstu úthlutun er að ræða og heildarumfang ferðakostnaðar lá ekki með öllu fyrir var mikil áhersla lögð á að fá inn umsóknir fyrir allar ferðir árið 2007 sem félög þurftu að fara út fyrir sitt sveitarfélag, á þau mót sem skilgreind voru í umsóknareyðublaði til sjóðsins. Umsóknum fyrir árið 2007 var safnað saman og styrkupphæðir metnar með tilliti til umfangs umsókna og upphæðar ríkisstyrks. Við mat á umsóknum var að þessu sinni tekið mið af eftirfarandi:

  • Öll íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda ÍSÍ gátu sótt um stuðning.
  • Einungis Íslandsmót og mót sem voru undanfarar Íslandsmóta voru styrkhæf í þessari úthlutun.
  • Einungis ferðir sem töldu 150 km eða lengra, aðra leið, voru styrkhæfar.

Ferðastyrkir verða greiddir út í marsmánuði.

Forsendur fyrir úthlutun 2008 verða endurskoðaðar í ljósi reynslu af úthlutun 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum