Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Surtsey samþykkt á heimsminjalista UNESCO

Heimsminjanefnd UNESCO samþykkti á fundi sínum 7. júlí í Québec í Kanada að setja Surtsey á heimsminjalistann á grundvelli vöktunar og rannsókna á þróun eyjunnar.

Heimsminjanefnd UNESCO samþykkti á fundi sínum 7. júlí í Québec í Kanada að setja Surtsey á heimsminjalistann á grundvelli vöktunar og rannsókna á þróun eyjunnar. Samþykktin felur í sér viðurkenningu til íslenskra stjórnvalda á friðun Surtseyjar 1965 og varðveislu náttúrulegs ástands hennar. Í mati á umsókn Íslands var sérstaklega tekið fram mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjunnar og framvindu lífríkis Surtseyjar fyrir heiminn. Surtsey er annar íslenski staðurinn sem tekinn er á heimsminjalistann og er hún skráð sem náttúruminjar, en Þingvellir eru fyrir á listanum á grundvelli menningarminja.

Ísland tilnefndi Surtsey á heimsminjalistann á tveimur forsendum, þ.e. vegna jarðfræðilegs mikilvægis og jarðfræðilegra þróunarferla og einnig á grundvelli vöktunar á landnámi dýra og plantna og framvindu lífríkis á Surtsey og í hafinu umhverfis eyna. Mat alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) var að einstakt alþjóðlegt mikilvægi Surtseyjar byggðist á seinna atriðinu og lögðu samtökin til að Surtsey yrði skráð á grundvelli þess. Heimsminjanefnd UNESCO samþykkti tillöguna einróma.

Skráningunni fylgir hvatning um að Ísland hugi að endurtilnefningu Surtseyjar á grundvelli jarðfræðilegs mikilvægis sem hluta af fjölþjóðlegri raðtilnefningu staða á Atlantshafshryggnum eða sem hluta íslenskrar raðtilnefningar íslenskra eldfjalla og rekbeltisins.

Heimsminjasamningur UNESCO frá árinu 1972 fjallar um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Menntamálaráðuneyti ber ábyrgð á framkvæmd samningsins fyrir Íslands hönd. Það hefur jafnframt umsjón með menningararfinum en umhverfisráðuneyti sér um náttúruminjar og náttúruvernd. Náið samstarf er á milli ráðuneytanna um framkvæmd samningsins.

Fulltrúar Íslands á fundi heimsminjanefndar UNESCO eru Ragnheiður H. Þórarinsdóttir frá menntamálaráðuneyti og Sigurður Á. Þráinsson frá umhverfisráðuneyti.

Menntamálaráðuneyti

Umhverfisráðuneyti



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum