Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samkeppni um hönnun byggingar yfir menningararfinn

Næstkomandi fimmtudag, 21. ágúst, verða kynntar niðurstöður samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Næstkomandi fimmtudag, 21. ágúst, verða kynntar niðurstöður samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Auk vinningstillögunnar hljóta tvær tillögur verðlaun og þrjár tillögur verða keyptar. Alls bárust nítján tillögur.

Kynningin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, 21. ágúst kl. 10:30. Formaður dómnefndar, Sigríður Anna Þórðardóttir, stjórnar athöfninni og kynnir niðurstöðurnar og flytja menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ og Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, stutt ávörp.

Frá árinu 1971 hafa íslensk handrit, sem skilað var frá Danmörku eftir langa vist þar í landi, verið varðveitt í Árnagarði af stofnun sem komið var á fót til að varðveita þau og rannsaka. Í sama húsi hefur farið fram kennsla og rannsóknir í íslenskum fræðum.

Árnagarður var reistur í nokkurri skyndingu af þjóð sem bjó við óstöðugan og heldur bágborinn efnahag en hugmyndin var að reisa síðar myndarlegri byggingu yfir þessar þjóðargersemar í tengslum við Þjóðarbókhlöðu eða í næsta nágrenni.

Árið 2006 voru fimm stofnanir á sviði íslenskra fræða sameinaðar í eina sem fékk nafnið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en árið áður höfðu ríkisstjórn og Alþingi samþykkt að verja einum milljarði til að reisa hús á svæði Háskóla Íslands yfir þessa starfsemi.

Nefnd sem menntamálaráðherra skipaði árið 2007 vann þarfagreiningu og samkeppnislýsingu um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ákveðið var að starfsemi íslenskuskorar Háskóla Íslands yrði einnig í húsinu sem risi á lóð A3 á háskólasvæðinu, norðan Guðbrandsgötu, vestan Suðurgötu. Menntamálaráðherra skipaði síðan dómnefnd í desember 2007 sem hafði það hlutverk að efna til opinnar samkeppni um hönnun húsnæðis Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskuskorar Háskóla Íslands, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

Samkeppnislýsingin lá fyrir í mars 2008 og var samkeppnin auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í byrjun þess mánaðar. Skilafrestur tillagna var 12. júní 2008.
 
Nítján tillögur bárust og voru allar metnar. Innsendar tillögur voru mjög fjölbreyttar og augljóst að höfundar nálguðust viðfangsefnið af miklum metnaði og frumleika. Djarfar og skemmtilegar hugmyndir birtast í mörgum tillögum þó þær hafi ekki hlotið verðlaunasæti eða verið valdar til innkaupa. Á heildina litið telur dómnefnd að niðurstöður samkeppninnar gefi góða mynd af mögulegri uppbyggingu á lóðinni og aðlögun að nærliggjandi byggingum.

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af menntamálaráðuneyti voru Sigríður Anna Þórðardóttir, sendiherra og formaður dómnefndar, Vésteinn Ólason forstöðumaður og Guðmundur R. Jónsson prófessor.

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands voru Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt FAÍ, og Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt FAÍ. Ritari dómnefndar var Þráinn Sigurðsson, sérfræðingur í  menntamálaráðuneytinu, trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar var Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum, en verkefnastjórn og ráðgjöf fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins önnuðust Ingólfur Aðalsteinsson verkefnastjóri og Bergljót S. Einarsdóttir arkitekt.

Dómnefnd leitaði álits hjá Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar um deiliskipulag og formaður dómnefndar átti fund með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanni skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, og Ólöfu Örvarsdóttur, skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar. Ráðgjafi frá stofnun Árna Magnússonar var Sigurgeir Steingrímsson rannsóknardósent og ráðgjafi frá íslenskuskor HÍ var Eiríkur Rögnvaldsson prófessor. Leitað var til VSÓ Ráðgjafar við stærðarreikninga og kostnaðarmat valdra tillagna. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum