Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2008

Viðburðir undir merkjum dags íslenskrar tungu 2008
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar
Íslenska til alls – Tillögur að íslenskri málstefnu
Menntamálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Á degi íslenskrar tungu, sunnudaginn 16. nóvember verður hátíðardagskrá í hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00–15:30. Kynntar verða tillögur að íslenskri málstefnu.

  • Upplestur: Alma Ágústsdóttir, Hagaskóla
  • Ávarp menntamálaráðherra
  • Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar: Tilurð íslenskrar málstefnu og vinna við hana
  • Skólakór Kársness syngur
  • Menntamálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og tvær
    viðurkenningar
  • Upplestur: Þórdís Hulda Árnadóttir, Austurbæjarskóla
  • Þingslit – veitingar

Nýyrðasamkeppni á miðstigi grunnskóla

Íslensk málnefnd, Námsgagnastofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Skýrslutæknifélag Íslands halda í ár nýyrðasamkeppni á miðstigi grunnskóla þar sem skólabörn eru beðin að finna íslensk heiti fyrir nokkur erlend orð.

Grunnskólar

Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp; ljóða- og smásagnasamkeppni; ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt; íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.

Vefir um Jónas Hallgrímsson

Vefur Mjólkursamsölunnar um Jónas Hallgrímsson Mjólkursamsalan, í samstarfi við Hvíta húsið, hefur útbúið vef með íslenskum náttúruljóðum, http://www.jonas.ms.is/.

Ljóð Jónasar Hallgrímssonar skipa stærstan sess á vefnum en þar má finna alls 443 ljóð eftir 119 höfunda frá 19. og 20. öld. Þessi vefur er langviðamesta safn íslenskra náttúruljóða sem nokkru sinni hefur verið tekið saman. Um leið markar hann alger tímamót í því hvernig hægt er nálgast fróðleik um íslenskar bókmenntir og náttúru á lifandi og myndrænan hátt.

Nú er t.d. hægt að fjalla í senn um bókmenntir þjóðarinnar, sögu, náttúrufræði og örnefni Íslands með nútímalegum hætti og mun vefurinn koma að góðu gagni í grunnskólum landsins.

Vefur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn opnaði vef um Jónas Hallgrímsson 16. nóvember 2006 á degi íslenskrar tungu. Vefurinn var unninn að tillögu nefndar sem skipuð var af menntamálaráðherra í tilefni 200 ára fæðingarafmælis þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Markmiðið með vefnum er að heiðra minningu Jónasar, kynna verk hans og gera þau aðgengileg á Netinu og vekja athygli á vísindastörfum Jónasar. Slóðin á vefinn er http://www.JonasHallgrimsson.is.

Efnt til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn

Menntaráð Reykjavíkurborgar efnir til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn. Þeim verður úthlutað á degi íslenskrar tungu. Markmið þessara verðlauna er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verðlaunin verða veitt nemendum sem hafa tekið framförum og eða náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafa hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.

Hafnarfjörður í tali og tónum

Hátíðin Hafnarfjörður í tali og tónum verður í Hásölum á degi íslenskrar tungu kl. 17. Þar munu verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni frá fyrri árum lesa texta úr sögu Hafnarfjarðar og eftir hafnfirska höfunda. Þá flytja

nemendur úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar tónlist og kór Öldutúnsskóla syngur.

Fjölbreytt dagskrá í Þjóðmenningarhúsinu

Á degi íslenskrar tungu, sunnudaginn 16. nóvember, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá í Þjóðmenningarhúsinu. Sýningar standa opnar frá kl. 11 en kl. 13 og kl. 15 verður í boði sérstök fjölskylduleiðsögn um handritasýningu Árnastofnunar í Þjóðmenningarhúsinu.

Kl. 14 flytur Tryggvi Gíslason magister fyrirlestur sem hann kallar Myndin af Jónasi Hallgrímssyni. Í fyrirlestrinum fjallar Tryggvi um þá mynd sem þjóðin hefur gert sér af skáldinu og náttúrufræðingnum Jónasi Hallgrímssyni en dagur íslenskrar tungu er einmitt tileinkaður honum. Einnig verður fjallað um teikningar, málverk og ýmis önnur myndverk sem gerð hafa verið af Jónasi. Færð verða rök fyrir því að tekin hafi verið ljósmynd af Jónasi Hallgrímssyni og að teikning eftir þeirri ljósmynd hafi varðveist. Fyrirlesturinn er haldinn af Menningarfélaginu Hrauni í Öxnadal og er einn árlegra Jónasarfyrirlestra félagsins.

Kl. 16 verður Lárusar Pálssonar, leikara og leikstjóra, minnst við bókarkynningu í tilefni af útkomu ævisögu hans sem Þorvaldur Kristinsson hefur ritað. Lárus Pálsson var snillingur í flutningi móðurmálsins á sviði og við hljóðnemann, m.a. er rómaður upplestur hans á ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.

Ókeypis aðgangur verður fyrir alla fjölskylduna að sýningum og á dagskrána í Þjóðmenningarhúsinu á degi íslenskrar tungu.

Háskóli Íslands – Mímir

Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum og ritlist, stendur fyrir hátíðardagskrá í tilefni af degi íslenskrar tungu, sunnudaginn 16. nóvember 2008 kl. 16:00–18:30. Hátíðin fer fram í stofu 201 í Árnagarði við Suðurgötu.
Ármann Jakobsson, Anton Karl Ingason, Katrín Jakobsdóttir, Haraldur Bernharðsson, María Anna Garðarsdóttir, Sigríður Þorvaldsdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir halda erindi. Hildur Knútsdóttir les smásögu, Margrét Guðrúnardóttir leikur tónlist og Magnús Sigurðsson les upp úr nýrri ljóðabók sinni.

Háskóli Íslands – menntavísindasvið

Nemendur á íslenskukjörsviði kennaradeildar menntavísindasviðs munu standa fyrir hátíðardagskrá í tilefni af degi íslenskrar tungu. Hátíðin verður haldin föstudaginn 14. nóvember kl. 13–15 í Skriðu við Stakkahlíð/Háteigsveg.

Grunnskólanemar munu flytja leikrit um Tómas Guðmundsson, kór skólans syngur, sigurvegari úr stóru upplestrarkeppninni stígur á svið, rithöfundar lesa úr jólabókum og fleira. Allir velkomnir.

Viðburðir undir merkjum dags íslenskrar tungu 2008 Dagskráin sem PDF skrá.


Menntamálaráðuneyti hefur falið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2008.
Nánari upplýsingar veitir Ágústa Þorbergsdóttir, [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum