Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

112-dagurinn 2009 - öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar.
112 dagurinn 2009
112dagurinn2009

Dagur neyðarnúmersins,112-dagurinn er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Viðbragðsaðilar heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.

Að venju verður skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur á 112-daginn og veitt verða vegleg verðlaun í Eldvarnagetrauninni.

Með einu símtali í 112 (einn, einn, tveir) er unnt að virkja á augabragði lögreglu, slökkvilið, almannavarnir, Landhelgisgæsluna, sjúkraflutninga, lækna og hjúkrunarfólk, hjálparlið Rauða krossins og björgunarsveitanna og barnaverndarnefndir. Neyðarverðir 112 afgreiða hátt í 200 þúsund neyðarsímtöl á ári hverju.

Á erfiðleikatímum er mikilvægt að börn geri sér grein fyrir að það víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem tengist neyðarnúmerinu stendur óhaggað. Jafnframt er ástæða til að hvetja börnin til að hika ekki við að hringja í 112 telji þau sig þurfa á aðstoð að halda.

Markmið 112-dagsins er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Samstarfsaðilar dagsins eru Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn og lögreglan, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum