Hoppa yfir valmynd
26. júní 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framfærslustyrkir til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum

Menntamálaráðherrar og samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu nýlega að veita hluta af ráðstöfunarfé Norrænu ráðherranefndarinnar til að styrkja unga, íslenska námsmenn til dvalar á hinum Norðurlöndunum.

Menntamálaráðherrar og samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu nýlega að veita hluta af ráðstöfunarfé Norrænu ráðherranefndarinnar til að styrkja unga, íslenska námsmenn til dvalar á hinum Norðurlöndunum og létta þeim róðurinn vegna áfalla sem stafa af fjármálakreppunni og atvinnuleysi sem henni fylgir. Til ráðstöfunar eru 5,5 milljónir danskar krónur á árinu 2009 og sama upphæð á árinu 2010. Menntamálaráðuneytinu var falið að móta reglur um það hvernig þessum fjármunum verði varið.

Menntamálaráðherra hefur látið kanna þörfina fyrir stuðning sem fallið getur undir þau skilyrði sem ráðherranefndirnar setja og nú ákveðið að verja þessu fé með tvennum hætti.

  1. Úthlutað verður dvalar- og ferðastyrkjum til ungs fólks í verknámsgreinum sem hefur hug á að sækja viðurkennda starfsþjálfun erlendis í 2 til 6 mánuði og ekki fær greidd laun á meðan starfsþjálfun stendur. Sérstaklega er horft til þeirra sem misst hafa vinnu á starfsþjálfunarsamningi hjá atvinnurekanda sem orðið hefur að hætta rekstri. Samið hefur verið við IÐUNA fræðslusetur um að annast umsýslu og afgreiðslu sem falla undir þennan lið. Upplýsingar um skilyrði til styrkveitinga og umsóknareyðublöð og fylgigögn eru komin á vef IÐUNNAR.
    Umsóknafrestur er til 15. júlí fyrir sumardvöl en til 15. september fyrir námsdvöl síðar á árinu.
  2. Úthlutað verður framfærslustyrkjum í allt að þrjá mánuði til þeirra sem skráðir eru í nám erlendis sem nýtur viðurkenningar samkvæmt reglum LÍN. Miðað er við aðstoð við einstaklinga sem eru í fjárhagsvanda vegna atvinnuleysis yfir sumarmánuðina þar sem námslán gera ráð fyrir eða 9-10 mánaða uppihaldi og viðkomandi eiga heldur ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna búsetuskilyrða. Samið hefur verið við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins um að annast móttöku og umsýslu styrkumsókna en sérstök úthlutunarnefnd ákvarðar úthlutanir.
    Nánari upplýsingar um skilyrði til styrkveitinga, umsóknareyðublöð og nauðsynleg fylgigögn verða á vef Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.
    Umsóknarfrestur er til 22. júní vegna framfærslukostnaðar sumarið 2009.

Miðað er við að framfærslustyrkir nemi 175 evrum á viku eða 700 evrum á mánuði. Ferðastyrkir geta numið allt að 500 evrum og greiðast samkvæmt reikningi þar sem við á.

Þess er vænst að afgreiðsla umsókna geti orðið innan mánaðar frá lokadegi umsóknarfrests.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum