Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ríflega 100 milljónir króna til íslenskra námsmanna á Norðurlöndum

Ríflega eitt hundrað milljónum króna hefur nú þegar verið úthlutað til íslenskra námsmanna á Norðurlöndunum sem áttu í erfiðleikum vegna slæms ástands á vinnumarkaðnum og bágs efnahagástands.

Ríflega eitt hundrað milljónum króna hefur nú þegar verið úthlutað til íslenskra námsmanna á Norðurlöndunum sem áttu í erfiðleikum vegna slæms ástands á vinnumarkaðnum og bágs efnahagástands. Að þessu sinni var öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur úthlutað styrk. Alls voru 292 umsækjendur sem uppfylltu skilyrði fyrir styrkveitingu.

Menntamálaráðherrar og samstarfsráðherrar Norðurlandanna ákváðu að veita 5,5 milljónum danskra króna (um 135 milljónum ISK) á árinu 2009 til að styrkja íslenska námsmenn á Norðurlöndum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagskreppunnar. Gert er ráð fyrir að sama upphæð verði í boði árið 2010.

Seinni umsóknarfrestur árið 2009 fyrir styrk til nemenda í iðn- og starfsnámi verða auglýstir með umsóknarfresti 15. september 2009, og aftur með tveimur umsóknarfrestum árið 2010. Gert er ráð fyrir að framfærslustyrkir til námsmanna á Norðurlöndum verði auglýstir aftur á vormánuðum 2010.

Menntamálaráðuneytinu var falið að móta úthlutunarreglur um styrkveitingarnar og að höfðu samráði við Samtök íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN), Rannís, IÐUNA fræðslusetur og Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins var ákveðið að verja þessum styrk á tvennan máta.


1. Framfærslu- og ferðastyrkir til ungs fólks í iðn- og starfsnámi
Sérstaklega var litið til nemenda sem hefðu misst eða ekki fengið námssamning vegna ástandsins á vinnumarkaðnum. Samið var við IÐUNA fræðslusetur um að annast  umsýslu og afgreiðslu umsókna.

Í júní voru auglýstir dvalar- og ferðastyrkir til ungs fólks í verknámsgreinum sem hefði hug á að sækja viðurkennda en ólaunaða starfsþjálfun á Norðurlöndum í 2-6 mánuði. Í boði voru styrkir að upphæð um 126.000 íslenskra króna á mánuði og ferðastyrkir. Einungis fimm einstaklingar sóttu um vinnustaðanám, þar af uppfylltu aðeins þrír þeirra skilyrði fyrir styrkveitingunni og hlutu styrk. Styrkirnir verða auglýstir aftur í lok ágústmánaðar með umsóknarfresti 15. september fyrir námsdvöl síðar á árinu.

Búist má við fleiri umsóknum er líður á árið þegar línur hafa tekið að skýrast í atvinnumálum. Það er ljóst að þessi styrkur er mjög mikilvægur fyrir þá nemendur sem geta tekið hluta eða lokið námssamningi sínum á Norðurlöndunum.


2. Framfærslustyrkir til námsmanna á Norðurlöndunum
Auglýstir voru framfærslustyrkir í 1- 3 mánuði til námsmanna á Norðurlöndum  sem væru í fjárhagsvanda vegna efnahagsástandsins. Samið var við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins um að annast móttöku og umsýslu  styrkumsókna en sérstök úthlutunarnefnd ákvarðaði úthlutanir.  Úthlutunarnefndin studdist við þær viðmiðunarreglur að umsækjandi væri íslenskur ríkisborgari í lánshæfu námi á Norðurlöndunum, skv. úthlutunarreglum LÍN, að hann fengi ekki námslán fyrir meira en 60 ECTS einingum á námsárinu, að hann væri ekki í lánshæfu sumarnámi en væri án atvinnu og ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvorki á Íslandi né á hinum Norðurlöndunum. Umsóknarfrestur var til 22. júní og námu styrkirnir um 126.000 íslenskum krónum á mánuði.

Mikill áhugi reyndist vera fyrir þessum styrkjum og bárust 328 umsóknir, þar af voru flestar eða 289 þeirra frá námsmönnum í Danmörku, 34 frá Svíþjóð, 4 frá Noregi en einungis ein umsókn barst frá námsmanni í Finnlandi.  

Að þessu sinni var öllum umsækjendum sem uppfylltu úthlutunarreglur úthlutað styrk, í allt að þrjá mánuði. Alls voru 289 umsækjendur sem uppfylltu skilyrði fyrir styrkveitingu eða rúm 88% umsækjenda og nam heildarúthlutun styrkja um hundrað milljónum íslenskra króna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum