Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2009

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í fjórtánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í fjórtánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.


Á vef dags íslenskrar tungu www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/ er að finna upplýsingar um hluta af því sem fram fer undir merkjum dagsins. Sennilega hafa þó ekki nærri allir áhugaverðir viðburðir dagsins ratað inn á vefinn enn og því er rétt að benda fólki á að fylgjast með því sem kann að bætast við vefinn næstu daga. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson, þar er hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og aðrar viðurkenningar á degi íslenskrar tungu.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum landsins hefst formlega á degi íslenskrar tungu. Um upplestrarkeppnina má lesa nánar á vefnum www.hafnarfjordur.is/upplestur

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálamálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir á Akureyri á degi íslenskrar tungu 2009. Hún fer að morgni 16. nóvember í leikskólann Kiðagil, Síðuskóla, Brekkuskóla og Naustaskóla. Um hádegisbil heimsækir hún Amtsbókasafnið o.fl. og verður síðan gestur íslenskuhátíðar, kl. 14-15.30, í Háskólanum á Akureyri á vegum framhaldsskóla og Háskólans. Loks verður hátíðardagskrá, öllum opin, í Ketilhúsinu kl. 16-17.

Á hátíðardagskránni afhendir ráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og tvær sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.
Hátíðardagskrá í Ketilhúsinu kl. 16:

  • Strengjasveit Tónlistarskólans á Akureyri leikur, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson
  • Upplestur, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni
  • Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
  • Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent
  • Ávarp verðlaunahafa
  • Ungkvennakór Akureyrarkirkju syngur, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson
  • Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir tvær viðurkenningar á degi íslenskrar tungu
  • Upplestur, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni
  • Dagskrárslit ― Veitingar í boði menntamálaráðuneytis


Þórarinn Eldjárn flytur erindið „Jónas að grínast“, á vegum Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal í sal Menntaskólans á Akureyri kl. 17.30.

Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, stendur fyrir hátíðardagskrá á degi íslenskrar tungu, mánudaginn 16. nóvember. Hátíðin fer fram í stofu 201 í Árnagarði við Suðurgötu. Dagskráin hefst kl. 17 með ávarpi háskólarektors. Margrét Eggertsdóttir ræðir um Hallgrím Pétursson og samtímann, Helga Birgisdóttir um áhrif Nonnabókanna á íslenskar barnabækur, Baggalútur kemur fram, Dagný Kristjánsdóttir fjallar um ástina, frá Ferðalokum Jónasar til Kvenna Steinars Braga, Guðjón Ragnar Jónasson ræður um markvissa orðaforðakennslu og loks flytur Halla Kjartansdóttir, þýðandi bóka Stiegs Larssons, erindi sem hún nefnir Þýðandi er leikari.

Jónasarvaka í Þjóðmenningarhúsinu. Árleg Jónasarvaka Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal og Þjóðmenningarhússins verður í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og hefst klukkan 17.15. Hún er öllum opin. Gerður Kristný flytur erindið Hvernig verður maður ástmögur þjóðarinnar? og Tryggvi Gíslason ræðir um ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Þá flytur Hamrahlíðarkórinn lög við ljóð Jónasar, m.a. tónsmíð Jóns Leifs við Sólsetursljóð Jónasar sem aðeins hefur verið flutt einu sinni áður.

Dæmi um dagskrá í grunnskólum
Í Hamraskóla byrja „Lestrarvinirnir“ alltaf á degi íslenskrar tungu; nemendur í fjórða bekk fara í leikskólann Klettaborg og lesa fyrir börnin þar, lestrarsprettur endar með dagskrá á sal, einnig er upplestur á sal o.fl.

Listasafn Einars Jónssonar
Listasafn Einars Jónssonar fær nemendur úr Austurbæjarskóla í heimsókn í safnið þar sem þeir flytja íslensk ljóð og stemmur undir stjórn Péturs H. Jónssonar tónmenntakennara.

Íslenskuverðlaun í Reykjavík
Íslenskuverðlaunum Menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir reykvísk skólabörn verður úthlutað á degi íslenskrar tungu. Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa tekið framförum og/eða náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafa hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar verður haldið laugardaginn 14. nóvember. Aðalefni þess er Íslenska í skólum. Þar verður m.a. kynnt árleg ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu og viðurkenningar veittar. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp sem hún nefnir „Út í heim á íslenskum skóm“ og fulltrúar allra skólastiga halda erindi. Sjá dagskrá á vefnum www.árnastofnun.is.


Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum