Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2009

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2009 voru afhent á hátíðardagskrá í Ketilhúsinu á Akureyri. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2009 voru afhent á hátíðardagskrá í Ketilhúsinu á Akureyri. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Þorsteini frá Hamri Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2009.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

„Íslenskt mál nútímans á rætur að rekja til ritmáls sem varð til á miðöldum en áður hafði tungan þróast og meitlast í skáldskaparhefð sem norrænir menn fluttu með sér þegar þeir námu hér land. Snorri Sturluson og aðrir andans menn á fyrstu öldum íslenskrar menningar mátu þennan arf að verðleikum og skráðu hann. Hinn óþekkti höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar orðar það svo að skáld séu „höfundar allrar rýni" og má túlka þau orð svo að viðgangur tungunnar og málskilningur sé rótfastur í skáldskapnum. Hin forna hefð lifir enn með þjóðinni þótt í breyttu formi sé og hún er lífæð íslenskrar orðmenningar. Ráðgjafarnefnd Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar var sammála um að mæla að þessu sinni með skáldi, Þorsteini frá Hamri. Þorsteinn frá Hamri kvaddi sér hljóðs fyrir hálfri öld og er meðal okkar fremstu skálda. Á miðri atómöld orti hann tvítugur að aldri undir dróttkvæðum hætti í bland við yngri og frjálsari form. Á mótunarárum Þorsteins tókust á gamall og nýr siður í skáldskap og hann hefur glímt við þessi siðaskipti með sérstökum hætti. Hin gamla íslenska ljóðhefð hefur alla tíð átt sterkar rætur í honum. Í bókinni Jórvík segir hann á einum stað:

Við týnumst

gaungum á fjörur

og finnum okkur sjálf í tætlum.

Til að glatast svona

þarf ekki stríð

ekki umferðarslys

ekki vegvillu

varla vín –

hið ósagða nægir.

Á bókmenntavefnum segir hann að öll sköpun sé eins konar „brúarsmíð – milli hugtaka, milli tímaskeiða, milli manna, þar sem merkingar eru jafnframt útvíkkaðar ýmislega. Ljóð um tré fjallar ef til vill ekki fyrst og fremst um tré ef betur er að gáð, heldur þá spegilmynd sem það öðlast í hug þess sem virðir það fyrir sér og yrkir um það. Lækurinn sem við lékum okkur hjá forðum tíð kann að vera horfinn fyrir löngu, en hann streymir um hugann og minnið, og ummyndast, ef svo ber undir, í óvænt tákn nýrrar merkingar – nýjan læk sem enginn veit eftir hvaða farvegum kann að kvíslast síðar meir í mennskum hugum."

  • Þorsteinn frá Hamri hlaut í verðlaun eina milljón króna og ritið Íslenska tungu sem er í þremur bindum.

Viðurkenningar á degi íslenskrar tungu:

Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Menntamálaráðherra ákvað að veita tvær viðurkenningar 2009.

  • Önnur var veitt Þórbergssetri á Hala í Suðursveit og hina fékk Baggalútur.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

Þórbergssetur

„Þórbergssetur á Hala í Suðursveit er menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund. Þórbergur var einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar. Hann fæddist og ólst upp á Hala í Suðursveit sem á þeim tíma var býli í einni afskekktustu byggð á Íslandi. Landfræðileg einangrun Suðursveitar markaðist af kolmórauðum jökulfljótum beggja vegna og að baki byggðar voru risavaxnir fjallgarðar og víðáttumiklar jökulbreiður en brimsandar og hafnleysur við sjávarsíðuna. Nú er Suðurveit í þjóðbraut og Þórbergssetur er þar verðugur minnisvarði um einn af mestu meisturum íslenskrar tungu. Sjálfur sagði Þórbergur fyrir um tilurð safnsins í Sálminum um blómið þar sem hann sagði Lillu Heggu að í framtíðinni myndu kaupmenn reisa ráðstefnuhöll á Hala og að þá myndi fólk koma til að hlusta á sögur úr Suðursveit. Það voru þó heimamenn sem reistu Þórbergssetur með stuðningi frá ríki og sveit. Þeir eru líka ávallt reiðubúnir að ræða við gesti og veita fræðslu og upplýsingar um umhverfi, náttúru og mannlíf."

Baggalútur

„Á seinni árum hefur Baggalútur rutt sér til rúms sem nokkuð sérstök menningarstofnun, annars vegar á netinu og hins vegar sem tónlistarhópur. Allt er þetta í gamansömum tón en jafnan fylgir nokkur broddur gagnrýni og oft eru skilaboðin tvíræð. Viðgangur tungunnar á þessum sviðum er afar mikilvægur og þótt vissulega sé þar misjafn sauður í mörgu fé eru á þessum sviðum margvísleg sóknarfæri fyrir íslenska tungu og menningu. Baggalútar hafa alla sína texta á íslensku og leika sér með málið á skemmtilegan hátt. Það er líka þakkarvert þegar ungir hæfileikamenn, sem hafa gott vald á máli, skapa frjóan umræðuheim á netinu þar sem andinn leikur lausum hala, án of mikillar alvöru."

Viðurkenningarhafar fengu listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristján Árnason og Þórarinn Eldjárn.

Á vef dags íslenskrar tungu eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum