Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íþróttaskóli ársins 2010 er Kvennaskólinn í Reykjavík

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun miðvikudaginn 21. apríl kl. 11.15 veita Kvennaskólanum í Reykjavík viðurkenningu sem Íþróttaskóli ársins 2010.
Kvennaskólinn í Reykjavík
Kvennaskólinn í Reykjavík

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti miðvikudaginn 21. apríl Kvennaskólanum í Reykjavík viðurkenningu sem Íþróttaskóli ársins 2010. Þennan dag er haldið upp á peysufatadaginn í Kvennaskólanum og munu nemendur dansa fyrir ráðherra fyrir utan Kvennaskólann í tilefni dagsins og verðlaunanna. Ragnheiður Eyjólfsdóttir, formaður íþróttanefndar og nemandi í 3. bekk, mun veita verðlaununum viðtöku. Kvennaskólinn sigraði í íþróttavakningu framhaldsskólanna með því að hljóta 316 stig eftir keppni í ýmsum íþróttagreinum og þátttöku nemenda í almennum hreyfistundum. Menntaskólinn á Laugarvatni, sem hafði titil að verja, lenti í öðru sæti með 286 stig og Verzlunarskóli Íslands hlaut 283 stig. Í ár tóku alls 10.000 nemendur frá 31 framhaldsskóla þátt í íþróttavakningunni sem fólst í keppni í blaki, futsal, körfuknattleik, sundi og frjálsum íþróttum auk þess sem nemendur tóku þátt í almennum hreyfistundum á vegum skólanna, s.s. ratleik, fjallgöngum, skautahlaupi, sundi, skíðagöngu, brennubolta, hlaupi ofl.

Íþróttavakning framhaldsskólanna fór nú fram í annað skiptið og stóð frá miðjum janúar til 19. mars 2010.  Á lokadeginum 19. mars var auk keppni í fyrrgreindum íþróttagreinum einnig keppt í fyrsta skipti í framhaldsskólahreysti og tóku 10 framhaldsskólar þátt í þessari prufukeppni. 

Íþróttavakningin er hluti forvarnarverkefna á vegum Heilsueflingar og forvarna í framhaldsskólum (HOFF) sem er samstarfsverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, Lýðheilsustöðvar og tveggja félaga framhaldsskólanema, Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema (HÍF). Verkefnið hefur verið í gangi í rúmlega tvö ár og lýkur nú í haust.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum