Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2010

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í fimmtánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í fimmtánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.
 
Á vef dags íslenskrar tungu  www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/ er að finna upplýsingar um hluta af því sem fram fer undir merkjum dagsins. Sennilega hafa þó ekki nærri allir áhugaverðir viðburðir ratað inn á vefinn enn og því er rétt að benda fólki á að fylgjast með því sem kann að bætast við vefinn næstu daga. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson, þar er hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og aðrar viðurkenningar á degi íslenskrar tungu.

Mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir Borgarnes
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í Borgarnesi á degi íslenskrar tungu 2010. Hún fer í Menntaskóla Borgarfjarðar um hádegisbil, ræðir við nemendur og starfsfólk og skoðar sýningu á vegum Grunnskólans í Borgarnesi og menntaskólans. Hún heimsækir leikskólann Klettaborg kl. 14.30, þá Skallagrímsgarð og íþróttamiðstöðina. Loks verður hátíðardagskrá, öllum opin, í Landnámssetrinu kl. 17-18.

  • Mennta- og menningarmálaáðherra veitir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og tvær sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Hátíðardagskrá í Landnámssetri Íslands kl. 17:
 Tónlist
 Upplestur (verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni)
 Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
 Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir tvær viðurkenningar á degi íslenskrar tungu
 Ávörp viðurkenningarþega
 Tónlist
 Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent
 Ávarp verðlaunahafa
 Upplestur  (verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni)
 Dagskrárslit  – Veitingar í boði mennta- og menningarmálaráðuneytis

Uppáhaldsnýyrði
Mjólkursamsalan kynnir nýtt málræktarátak á mjólkurfernum landsmanna. Þátttakendur velja uppáhaldsnýyrði sitt á vefnum http://www.ms.is/ og geta unnið til verðlauna ef þeir skrá sig. Dregið verður úr pottinum á degi íslenskrar tungu.

Nýyrði Jónasar á Akureyri
Svavar Sigmundsson fjallar um nýyrði Jónasar Hallgrímssonar í Menntaskólanum á Akureyri í samvinnu Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal, Menntaskólans á Akureyri og Háskólans á Akureyri á gamla sal Menntaskólans á Akureyri kl. 17.  Allir eru velkomnir.

Jónasarvaka í Þjóðmenningarhúsinu.  Árleg Jónasarvaka Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal og Þjóðmenningarhússins verður í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og hefst klukkan 17.15. Vilborg Dagbjartsdóttir les nokkur eftirlætisljóða sinna eftir Jónas, Jón Karl Helgason flytur erindið: Bjarni eða Jónas? Kanónísering þjóðskálds á 19. öld. Þar verður einnig fjöldasöngur og Karlakór Reykjavíkur, eldri félagar, syngja nokkur lög. Allir eru velkomnir.

Með íslenska tungu á vör - Maraþonlestur
Ársafn Borgarbókasafns heldur upp á  dag íslenskrar tungu með maraþonlestri frá kl. 11–17. Lesturinn ber yfirskriftina „Með íslenska tungu á vör“ og verður gestum boðið að lesa úr sínum uppáhalds bókum. Starfsfólk Ársafns tekur á móti gestum íklætt þjóðbúningum og býður upp á kaffi og ástarpunga. Allir eru velkomnir á safnið til að lesa eða hlusta.

Hátíðardagskrá Mímis og Mjólkursamsölunnar
Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, heldur dag íslenskrar tungu hátíðlegan með veglegri dagskrá í samstarfi við Mjólkursamsöluna þann 16. nóvember. Hátíðin  fer fram í stofu 201 í Árnagarði við Suðurgötu milli kl. 17 og 19.  Fyrirlestrar, skemmtiatriði og léttar veitingar. Heiðursgestur er Helga Kress.  Allir eru velkomnir.

Íslenskuverðlaun í Reykjavík
Íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur verða veitt í Ráðhúsinu á degi íslenskrar tungu kl. 16. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti. Verðlaunin eru veitt grunnskólanemum, sem hafa skarað fram úr á ýmsa vegu, í lestrarfærni, skapandi skrifum, ljóðsmíðum og framsögn, við hátíðlega athöfn. Frú Vigdís flytur ávarp og skólakór Laugarnesskóla syngur. Allir eru velkomnir.

Loðmar og málrækt
Bókaútgáfan Salka stendur fyrir uppákomu á degi íslenskrar tungu í tilefni útgáfu bókarinnar Loðmar. Í bókinni, sem fjallar um Loðmar er leggur af stað í langferð, eru bráðskemmtilegar orðskýringar og bókbúatal. Orðskýringarnar lúta að orðum sem sum hver eru ekki lengur algeng í íslenskum barnabókum og eru jafnvel að falla í gleymsku, eins og  njörva niður og vera vægðarlaus. Höfundar, Embla Vigfúsdóttir og Auður Ösp Guðmundsdóttir, lesa upp úr bókinni og segja frá tilurð hennar og skringilegheitum í Skipholti 50 c kl. 12.45. Allir eru velkomnir.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum
Stóra upplestrarkeppnin fer nú af stað í 15. sinn og hefst formlega á degi íslenskrar tungu, eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð, verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp,  ljóða- og smásagnasamkeppni,  ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt og íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.

Dagur íslenskrar tungu í grunnskólum
Í Hamraskóla koma nemendur saman á sal og syngja  m.a. skólasöng Hamraskóla sem var frumfluttur á degi íslenskrar tungu í fyrra. Þá verður upplestur, nemendur fá afhentar viðurkenningar fyrir lestrarsprett sem hófst viku fyrr og nemendur úr unglingadeild lesa ljóð og örsögur. Verkefnið Lestrarvinir hefst og nemendur fjórða bekkjar lesa fyrir leikskólabörn á Klettaborg.

Dagur íslenskrar tungu í leikskólum
Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur les og spjallar við leikskólabörn á Lindarborg 16. nóvember í tilefni dags íslenskrar tungu.


Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum