Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum

Allt frá setningu grunnskólalaganna 2008 hefur verið unnið að gerð heildstæðrar reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í víðtæku samráði við hagsmunaaðila.

Allt frá setningu grunnskólalaganna 2008 hefur verið unnið að gerð heildstæðrar reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Lögð hefur verið mikil áhersla á að ná sátt um þessa reglugerð sem ætlað er víðtækt hlutverk hvað varðar m.a. skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í þeim efnum og málsmeðferð í skólum þegar misbrestur verður á tilteknum atriðum.

Markmið reglugerðarinnar er m.a. að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans og að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæð samskipti eru höfð að leiðarljósi.  Einnig er markmiðið að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti.

Samkvæmt reglugerðinni skal setja skólareglur í hverjum grunnskóla með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum og að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. Reglurnar skulu árlega kynntar nemendum og foreldrum þeirra og birtar í starfsáætlun.  Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur.

Þá er í reglugerðinni ítarlega fjallað um starf grunnskóla gegn einelti, sem er nýmæli, en allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og skal kynnt sérstaklega og birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur.  Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis skal stofna sérstakt fagráð í eineltismálum sem starfar á landsvísu en foreldrar eða skólar eiga að geta óskað eftir aðstoð þess ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu.
Nýmæli er að í reglugerðinni er fjallað um líkamlegt inngrip í málum nemenda vegna óásættanlegrar og/eða skaðlegrar hegðunar nemenda.  Áréttað er að starfsfólki skóla sé óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni.  Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemenda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla þá ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda.  Ávallt skal þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Einnig er ítrekað að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga skuli höfð í heiðri við öll agabrot, svo og ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt, meðalhóf og rannsóknar- og upplýsingaskyldu.   Í hverjum grunnskóla skulu vera til verklagsreglur unnar af starfsfólki skóla vegna tilvika þegar nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun nemanda, bregðast við hótunum eða ef rökstuddur grunur er um að nemandi sé undir áhrifum vímuefna.
Reglugerðin er sett með heimild í 14. og 30. gr. laga um grunnskóla.  Gildandi reglugerð um skólareglur í grunnskóla nr. 270/2000 mun falla úr gildi við setningu reglugerðarinnar.

Reglugerðin er nr. 1040/2011 og er aðgengileg á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hvetur ráðuneytið alla aðila sem láta sig nám og velferð barna og ungmenna varða að kynna sér vel efni reglugerðarinnar og vinna á samhentan hátt að innleiðingu hennar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum