Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt Ríkisendurskoðunar á skuldbindandi samningum

Í tilefni af úttekt Ríkisendurskoðunar á skuldbindandi samningum hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti þegar bent á að það er í öllum aðalatriðum sammála þeim ábendingum, sem þar koma fram.

Í tilefni af úttekt Ríkisendurskoðunar á skuldbindandi samningum hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti þegar bent á að það er í öllum aðalatriðum sammála þeim ábendingum, sem þar koma fram. Ábendingarnar eiga þó einkum við um samninga sem voru gerðir fyrir árið 2011 því nýtt samningsform hefur verið innleitt og fyrstu samningarnir, sem gerðir voru samkvæmt því, voru undirritaðir haustið 2011.
Hluti af nýja samningaforminu er sérstakt upplýsingakerfi til að vakta ákvæði í samningum, kalla eftir gögnum, boða fundi, inna greiðslur af hendi og svo framvegis. Kerfið á einnig að tryggja yfirsýn yfir samninga. Í maí 2011 var leiðbeiningum, verklagsreglum og verkferlum vegna undirbúnings og eftirlits með samningum bætt við gæðahandbók ráðuneytisins. Sama er að segja um meðferð umsókna um styrki, veitingu þeirra, skilmála, kröfur um upplýsingagjöf og eftirlit með ráðstöfun styrkja. Skilmálar koma fram í styrkbréfum auk þess að vera birtir á vef ráðuneytisins.
Á árinu 2010 gerði Ríkisendurskoðun, að beiðni ráðuneytisins, úttektir á þremur skólum, sem voru reknir af einkaaðilum með framlögum úr ríkissjóði samkvæmt samningum þar að lútandi. Í kjölfar þeirra var snemma á árinu 2011 var ráðist í að endurskoða fyrirkomulag samninga í ráðuneytinu. Ákveðið var að samræma ákvæði samninga eftir því sem við átti, auka áherslu á að skilgreina markmið hvers samnings eins vandlega og unnt er og að þróa mælikvarða á þau. Þá var ákveðið að herða kröfur um upplýsingaskil, auka formlegt eftirlit og formleg samskipti við einkaaðila með rekstrarsamninga og að herða á ákvæðum um ábyrgð og vanefndir að hálfu þess, sem fær framlög samkvæmt samningi. Til að auka gagnsæi gagnvart almenningi, hagsmunaaðilum og Alþingi er ætlast til þess að sá, sem gerir rekstrar- eða þjónustusamning við ráðuneytið, birti m.a. á vefsíðu sinni samninginn, ársreikning sinn, greinargerðir um framkvæmd samningsins, úttektarskýrslur og önnur gögn sem varða framkvæmd samningsins og viðkomandi starfsemi. Ráðuneytið stefnir að því að birta samningana einnig á vef sínum og eru sumir þeirra nú þegar aðgengilegir þar. Undirbúningur og framkvæmd þessara breytinga hefur verið flókin og tímafrek vegna þess hve ráðuneytið hefur átt í samskiptum við marga aðila vegna þeirra. Þar má nefna fjármálaráðuneyti, Ríkisendurskoðun og forsvarsmenn margra félaga og sjálfseignarstofnana, sem fyrir liggur að endurnýja samninga við.
Ráðuneytið hefur í svörum sínum til Ríkisendurskoðunar gert grein fyrir þeim breytingum og umbótum, sem það hefur unnið að til að koma samningum í ákjósanlegan farveg

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum