Hoppa yfir valmynd
11. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Staða menntamála árið 2010

Skýrsla OECD um stöðu menntamála.

Menntunarstaða Íslendinga hefur batnað jafnt og þétt frá aldamótum. Árið 2010 höfðu 33% fólks á aldrinum 25 – 64 ára á Íslandi lokið háskólaprófi og 33% höfðu ekki lokið neinu prófi eftir grunnskóla samanborið við 21% og 45% um aldamótin.

Skýrsla OECD um stöðu menntamála árið 2010

Helstu atriði 

  • Menntunarstaða Íslendinga hefur batnað jafnt og þétt frá aldamótum.
  • Hlutfall þeirra sem ekki höfðu lokið formlegri menntun eftir grunnskóla hátt í samanburði við önnur OECD ríki.
  • Útgjöld til háskólamála hafa ekki fylgt eftir hraðri fjölgun nemenda frá aldamótum.
  • Tæp 20% íslenskra háskólanema stunda nám erlendis.

Menntunarstaða Íslendinga hefur batnað jafnt og þétt frá aldamótum. Árið 2010 höfðu 33% fólks á aldrinum 25 – 64 ára á Íslandi lokið háskólaprófi og 33% höfðu ekki lokið neinu prófi eftir grunnskóla samanborið við 21% og 45% um aldamótin. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD um stöðu menntamála í aðildarríkjunum, Education at a Glance, sem gefin var út í dag.

Í skýrslunni eru tölfræðilegar upplýsingar sem sýna menntunarstöðu þjóða, þeim árangri sem náðst hefur við að mennta vinnuaflið, hvaða áhrif menntun hefur á efnahagslífið, upplýsingar um útgjöld til menntamála og hvernig þeim útgjöldum er ráðstafað, um sókn eftir menntun og sambandið milli menntunar og atvinnuþátttöku, auk þess sem fjallað er um skipulag skólastarfs og laun kennara.

Menntunarstaða í alþjóðlegum samanburði
 Þrátt fyrir jákvæða breytingu á menntunarstöðu Íslendinga frá árinu 2000 til 2010 þá var hlutfall þeirra sem ekki höfðu lokið formlegri menntun eftir grunnskóla hátt í samanburði við flest önnur OECD ríki. Meðaltal innan OECD var 26% samanborið við 33% á Íslandi sem er einnig hærra en á hinum Norðurlöndunum. Aftur á móti er hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi (33%) sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum, t.d. eru 33% háskólamenntaðir í Danmörku og 34% í Svíþjóð.

Námsgengi eftir skólastigum og menntun foreldra
 Á Íslandi ljúka hlutfallslega færri framhaldsskólanemar námi á tilskildum tíma á Íslandi en í öðrum OECD löndum. 44% íslenskra framhaldsskólanema hafa lokið framhaldsskólaprófi eftir fjögur ár og eftir sex ár hafa 58% brautskráðst. Í öllum löndum nema Íslandi og Mexíkó hafa yfir 60% lokið námi tveimur árum eftir tilskildan tíma. Í hinum Norðurlöndunum er hlutfallið yfir 70%. Á móti kemur að hvergi nema í Portúgal ljúka fleiri framhaldsskólaprófi seinna á lífsleiðinni en á Íslandi, þar sem 18% brautskráðra eru eldri en 25 ára. Þannig má búast við að yfir 80% þeirra sem eru að hefja framhaldsskólanám í dag muni ljúka framhaldsskólaprófi einhvern tímann á lífsleiðinni.

Í skýrslunni er áætlað að um 60% ungs fólks sem er að hefja háskólanám muni ljúka háskólaprófi einhvern tímann á ævinni miðað við núverandi fjölda brautskráninga. Á aldrinum 25 – 34 ára hafa 36% lokið háskólaprófi og 39% á aldrinum 35 – 44 ára. Þegar litið er á brautskráningar eftir kyni þá voru konur  69% brautskráðra með BA gráðu , 62% á meistarastigi og 44% doktorsnafnbóta. Hlutfall íslenskra kvenna sem luku BA prófi var það hæsta meðal OECD landanna.

Í skýrslunni er reynt að meta hvort menntun foreldra hefur áhrif á námsgöngu barna. Í öllum aðildarlöndum OECD er skýrt samband milli menntunar foreldra og námsgöngu barna. Minni líkur eru á því að börn foreldra sem hafa ekki lokið formlegri menntun eftir grunnskóla fari sjálf í háskóla. Miðað við meðallíkur á háskólanámi þá eru líkur þessa hóps 0,44 innan OECD en 0,73 á Íslandi.  Á Íslandi höfðu 54% fólks á aldrinum 25-34 ára sem áttu foreldra með háskólamenntun lokið háskólaprófi, 25% með foreldra með framhaldsskólapróf og 32% með foreldra sem höfðu aðeins grunnskólapróf. Svo virðist að menntun móður vegi þyngra en menntun föður í þessu sambandi.

Útgjöld til menntamála
 Árlegur útgjöld vegna hvers nemanda á Íslandi, að meðaltali fyrir öll skólastig árið 2009, var 9.429 bandaríkjadollarar, eða u.þ.b. 1.180.000 íslenskar krónur á gengi við lok árs 2009*. Það er hærra en meðaltal OECD landanna en lægra en á hinum Norðurlöndunum.

Árleg útgjöld fyrir hvert leikskólabarn var hærra en á hinum Norðurlöndunum og hærra en meðaltal innan OECD. Fyrir grunnskólann voru útgjöldin hér á landi hærri en meðaltal OECD en lægri en í Noregi. Útgjöld  vegna framhaldsskólanema voru lægri en á Norðurlöndunum og meðaltal OECD. Útgjöld vegna háskólanema voru lægri en meðaltal OECD og á hinum Norðurlöndunum. Árleg útgjöld vegna hvers háskólanema á Íslandi voru 53% af meðaltali OECD og um 50% af kostnaði við háskólanema í Noregi og Svíþjóð.

Á árunum milli 2000 og 2009 hækkuðu útgjöld á hvern nemenda á skólastigum fyrir neðan háskóla um 30%. Aftur á móti lækkuðu útgjöld á hvern nemenda á háskólastigi um 4% á sama tímabili. Aukning á útgjöldum til háskólastigsins náði ekki að fylgja eftir mikilli fjölgun háskólanema, en þeim fjölgaði um 66% frá 2000 til 2009 á sama tíma og útgjöld til háskólastigsins jukust um 59%.

Í skýrslunni er reynt að meta áhrif fjármálakreppunnar á menntaútgjöld á milli áranna 2008 og 2009. Samdráttur varð í útgjöldum til menntamála á Íslandi en þrátt fyrir það varð aukning um 2,7% í útgjöldum sem hlutfall af landsframleiðslu, þar sem landsframleiðslan dróst meira saman en sem nam samdrætti í útgjöldum. Í öllum aðildarríkjum OECD nema einu varð aukning á útgjöldum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en ljóst er að áhrif kreppunnar voru ekki að fullu komin fram árið 2009.

Háskólanemar erlendis
 Íslenskir háskólanemendur sem stunduðu nám við erlenda háskóla voru 3.771 talsins árið 2010, sem var 19,6% allra háskólanema með íslenskt ríkisfang. Aðeins í Lúxemborg var hærra hlutfall háskólanema sem stundaði nám erlendis. Tveir af hverjum þremur leituðu til Norðurlandanna, langflestir til Danmerkur, eða 1.730 nemendur, sem var  46% af öllum íslenskum háskólanemum erlendis. 21% námsmanna stunduðu nám í enskumæland löndum, Bretlandi og Norður-Ameríku. Á Íslandi voru 4,9% háskólanema með erlent ríkisfang, flestir þeirra komu frá Þýskalandi eða 15% á heildarfjölda þeirra.

Sjá samantekt mennta- og menningarmálaráðuneytis á efni skýrslunnar:

Nánari upplýsingar eru á vef OECD:  http://www.oecd.org/edu/eag2012.htm

________________________________________
 *OECD skýrslan birtir allar tölur um kostnað í bandaríkjadollurum að teknu tilliti til kaupmáttarvísitölu sem er reiknuð fyrir hvert land. Kostnaðartölur eru því ekki endilega sambærilegar við tölur reiknaðar í krónum fyrir sama tímabil, eins og Hagstofa Íslands gefur þær upp.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum