Hoppa yfir valmynd
29. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sjálfsmat

Sjálfsmat er leið til þess að vinna kerfisbundið að gæðum og umbótum í skólastarfi. Sjálfsmat er einnig leið til þess að miðla þekkingu og upplýsingum um skólastarf. Í sjálfsmati skal koma fram stefna og markmið skóla, skilgreining á leiðum til þess að ná þeim, greining á sterkum og veikum hliðum skólastarfs og áætlun um úrbætur. Megintilgangur þess er að gera starfsfólki skóla auðveldara að vinna að framgangi markmiða skólans, meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Þetta á jafnt við um markmið og áherslur í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og staðbundin markmið sem skólarnir setja fram í skólanámskrám. Um leið skapar sjálfsmat faglegan grundvöll fyrir umbætur. Með sjálfsmati fer fram víðtæk gagnaöflun um skólastarfið sem veitir upplýsingar um í hve miklum mæli árangur skólastarfsins er í samræmi við markmið. Sjálfsmat er ekki unnið í eitt skipti fyrir öll heldur þarf stöðugt að vinna að því. Það er langtímamiðað en ekki einangruð aðgerð. Í sjálfsmatsskýrslu skóla þarf að vera ítarleg lýsing og greining á markmiðum og starfi skólans. Jafnframt er mikilvægt að í sjálfsmatsskýrslu skóla komi fram tillögur um úrbætur.

Í gildandi lögum um grunnskóla eru skýr ákvæði um að skólar skuli innleiða sjálfsmat. Samkvæmt lögunum er skólum í sjálfsvald sett hvaða aðferðum þeir beita við sjálfsmat. Í lögunum eru einnig ákvæði um að á fimm ára fresti skuli menntamálaráðuneytið láta fara fram úttekt á þeim sjálfsmatsaðferðum sem skólar nota.

 

Viðmið fyrir sjálfsmat

Þau atriði, sem menntamálaráðuneyti telur mikilvæg sem viðmið fyrir vinnu við sjálfsmat, eru að sjálfsmatið sé:

  • Formlegt. Matið skal byggt á kerfisbundnum aðferðum sem lýst er í sjálfsmatsskýrslu. Þar skal einnig koma fram hvernig var staðið að verkinu og hverjir unnu það.
  • Altækt. Matið skal ná til allra helstu þátta leikskólastarfsins. Meta þarf markmið, stjórnun, framkvæmd uppeldis- og námssviða, framfarir og líðan barnanna og samvinnu meðal starfsfólksins og samvinnu við heimili barna.
  • Áreiðanlegt. Matið þarf að byggjast á traustum gögnum frá leikskólanum, jafnframt því að framkvæmdar séu viðhorfskannanir meðal foreldra, barna og starfsfólks.
  • Samstarfsmiðað. Allir, sem starfa í leikskólanum, þurfa að tengjast matinu. Verkaskipting og boðleiðir þurfa að vera skýrar. Við skipulagningu og undirbúning sjálfsmatsins þarf að kynna starfsmönnum umfang verkefnisins og sátt þarf að ríkja um framkvæmd þess. Huga þarf að þátttöku foreldra og annarra hagsmunaaðila í sjálfsmatinu.
  • Umbótamiðað. Í kjölfar mats þarf að gera áætlun um umbætur og þróun á starfinu. Einnig þarf að benda á hvernig markmiðum umbótaáætlunarinnar verði náð og skilgreina þarf hvernig megi meta árangur.
  • Stofnana- og einstaklingsmiðað. Matið þarf að taka bæði til leikskólans í heild og þeirra einstaklinga sem þar vinna.
  • Lýsandi. Í sjálfsmatsskýrslu skal lýsa í stuttu máli starfsemi leikskólans í skrifuðum texta, með myndum og í töflum.
  • Greinandi. Í matinu skal koma skýrt fram greining á styrkleika og veikleika í einstökum þáttum leikskólastarfsins.
  • Opinbert. Ákveða þarf hverjir eiga að hafa aðgang að tilteknum þáttum sjálfsmatsins en sjálfsmatsskýrslu þarf að birta opinberlega. Hér þarf að tryggja að haldin séu í heiðri ákvæði gildandi laga, m.a. um meðferð persónuupplýsinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum