Dagur íslenskrar tungu

Viðburðir í tilefni dags íslenskrar tungu 2010


Dagur íslenskrar tungu 2010

Síðastliðin ár hefur skapast sú hefð að mennta-og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í einu ákveðnu sveitarfélagi á degi íslenskrar tungu. Hátíðardagskrá og afhending Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls er einnig haldin í því sveitarfélagi. Í ár verður Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í Borgarnesi. Dagskráin verður birt þegar nær dregur.

Dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra í Borgarnesi:

 • kl. 13.00 Sýning í menningarsal Menntaskóla Borgarfjarðar á vegum Grunnskólans í Borgarnesi og menntaskólans. Nemendur úr 3., 6. og 8. bekk verða með upplestur, söng og fleira ásamt nemendum úr menntaskólanum
 • kl. 14.00   Gengið um menntaskólann, skólinn skoðaður, rætt við nemendur og starfsfólk
 • kl. 14.30   Heimsókn í leikskólann Klettaborg
 • kl. 15.30   Atriði í Skallagrímsgarði
 • kl. 16.00   Íþróttamiðstöðin skoðuð
 • kl. 16.30   Dagskrá lýkur
 • kl. 17.00   Hátíðardagskrá í Landnámssetrinu

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í Landnámssetrinu

Á degi íslenskrar tungu, þriðjudaginn 16. nóvember, verður hátíðardagskrá þar sem mennta- og menningarmálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2010 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls.

Dagskráin verður í Landnámssetri Íslands, Brákarbraut 13-15 , Borgarnesi kl. 17-18. Allir eru velkomnir.
Dagskrá
:

 • Tónlist (Hanna Ágústa Olgeirsdóttir frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar syngur og Jónína Erna Arnardóttir leikur undir á píanó)
 • Upplestur (Brynjar Björnsson, úr Grunnskóla Borgarfjarðar, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni)
 • Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
 • Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir tvær viðurkenningar á degi íslenskrar tungu.
 • Ávörp viðurkenningarþega.
 • Tónlist, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir og Höskuldur Kolbeinsson frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar syngja saman. Með þeim leikur Jónína Erna Arnardóttir á píanó.
 • Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent
 • Ávarp verðlaunahafa.
 • Upplestur (Hrund Hilmisdóttir grunnskólanemi í Borgarnesi, verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni.
 • Dagskrárslit   -  Veitingar í boði mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum

Stóra upplestrarkeppnin fer nú af stað í 15. sinn og hefst formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp; ljóða- og smásagnasamkeppni; ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt; íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.

Litla upplestrarkeppnin
 •  Nýjung í Hafnarfirði þar sem farið verður af stað með Litlu upplestrarkeppnina í 4. bekk.

Jónasarvaka 2010 í Þjóðmenningarhúsinu

Dag íslenskrar tungu ber að þessu sinni upp á þriðjudag og þann dag kl. 17:15 hefst Jónasarvaka í Þjóðmenningarhúsinu. Félagið Hraun í Öxnadal heldur Jónasarvöku í samvinnu við Þjóðmenningarhúsið. Á vökunni er Jónasar Hallgrímssonar, skálds og náttúruvísindamanns, minnst á fjölbreyttan hátt og dagskráin í ár er á þessa leið:

 • Markús Örn Antonsson, forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, setur samkomuna
 • Vilborg Dagbjartsdóttir, rithöfundur, les nokkur eftirlætisljóða sinna eftir Jónas
 • Karlakór Reykjavíkur, eldri félagar, syngja nokkur lög. Stjórnandi: Friðrik S. Kristinsson
 • Jón Karl Helgason, dósent, flytur erindið: Bjarni eða Jónas? Kanónísering þjóðskálds á 19du öld
 • Fjöldasöngur: Vísur Íslendinga, Heylóarvísa og Álfareiðin
 • Kynnir er Tryggvi Gíslason, formaður félagsins Hraun í Öxnadal
 • Allir eru velkomnir á samkomuna og aðgangseyrir er enginn. Dagskrá

Nýyrði á mjólkurfernum 

Mjólkursamsalan kynnir nýtt málræktarátak á mjólkurfernum landsmanna. Þátttakendur velja uppáhaldsnýyrði sitt og geta unnið til verðlauna ef þeir skrá sig. Dregið verður úr pottinum á degi íslenskrar tungu.  

Loðmar og málrækt

Bókin Loðmar kemur út á degi íslenskrar tungu og fjallar um Loðmar sem leggur af stað í langferð um víðáttur eigin bókar og hittir aðra íbúa hennar sem allir hafa sín stórundarlegu einkenni. Í lokin eru svo bráðskemmtilegar orðskýringar og bókbúatal. Orðskýringarnar lúta að orðum sem sum hver eru ekki lengur algeng í íslenskum barnabókum og eru jafnvel að falla í gleymsku, t.d. njörva niður og vera vægðarlaus. Höfundar eru Embla Vigfúsdóttir og Auður Ösp Guðmundsdóttir.

Í tilefni útgáfnnar stendur Bókaútgáfan Salka fyrir uppákomu á degi íslenskrar tungu í Skipholti 50 c kl. 12.45. Höfundar lesa upp úr bókinni og segja frá tilurð hennar og skringilegheitum. Allir eru velkomnir.

Með íslenska tungu á vör - Maraþonlestur 

Ársafn Borgarbókasafns heldur upp á  dag íslenskrar tungu með maraþonlestri frá kl. 11.00 -17.00. Lesturinn ber yfirskriftina Með íslenska tungu á vör og verður gestum boðið að lesa úr sínum uppáhalds bókum. Því er viðbúið að lesefnið verði mjög fjölbreytt og lesið verði úr ævisögum, ljóðum, skáldsögum, ævintýrum, matreiðslubókum, hestabókum, ferðabókum o. s. frv.  Starfsfólk safnsins hvetur alla til að koma og velja sér þær bækur sem höfða til þeirra úr hillunum. Lesandinn ræður svo hvort hann les í fimm eða tíu mínútur, eða jafnvel lengur.    

Undanfarin ár hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu með ýmsu móti hjá Ársafni. 
Í fyrra var maraþonlestur og tókst hann með miklum ágætum og lásu börn og fullorðnir eitthvað sem tengdist ást og vináttu. Því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn en auka valmöguleikana á lestrarefninu.

Starfsfólk Ársafns tekur á móti gestum íklætt þjóðbúningum og býður upp á kaffi og ástarpunga. Allir eru velkomnir á safnið hvort sem þeir koma til að lesa eða hlusta og vonum við að allir skemmti sér hið besta með íslenska tungu á vör. 

Svavar Sigmundsson fjallar um nýyrði Jónasar í Menntaskólanum á Akureyri

Menningarfélagið Hraun í Öxnadal hefur boðið upp á fyrirlestra í tilefni dags íslenskrar tungu frá árinu 2004 í Menntaskólanum á Akureyri. Fengnir hafa verið fræðimenn til að fjalla um ýmislegt tengt Jónasi og íslensku máli. Í ár mun Svavar Sigmundsson fyrrum rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunarinnar flytja erindi sem hann nefnir “Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar”. Fyrirlesturinn hefst klukkan 17.00 á gamla sal Menntaskólans á Akureyri. Nú í ár er viðburðurinn samvinnuverkefni Hrauns í Öxnadal, Menntaskólans á Akureyri og Háskólans á Akureyri.

Efnt til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn

Íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur verða að vanda veitt í Tjarnarsal Ráðhússins á degi íslenskrar tungu 16. nóv. kl. 16.00. 
Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti. Verðlaunahafar eru að þessu sinni um 60, þar af þrír skólabekkir.   
Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn, þar sem frú Vigdís flytur ávarp og skólakór Laugarnesskóla syngur.

Markmið íslenskuverðlauna menntaráðs er að auka áhuga grunnskólanema á móðurmálinu og hvetja þá til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Grunnskólanemar sem taka við verðlaunum hafa skarað fram úr á ýmsa vegu, í lestrarfærni, skapandi skrifum, ljóðsmíðum og framsögn. Nokkrir þeirra eiga annað móðurmál en íslensku en hafa sýnt miklar framfarir í íslenskunámi og tjáningu. Allir fá til eignar veglegan verðlaungrip sem hannaður er af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur.  
 

Opnun Tungumálatorgs á degi íslenskrar tungu

Menntavísindasvið Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið bjóða til samkomu í tilefni af opnun Tungumálatorgsins á degi íslenskrar tungu. Forseti Menntavísindasviðs Jón Torfi Jónasson flytur ávarp og Brynhildur A. Ragnarsdóttir og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir kynna verkefnið og fjalla um þróun og ávinning af því. Dagskráin fer fram í bókasafni Menntavísindasviðs við Stakkahlíð kl. 12.30-13.30

Hátíðardagskrá Mímis og Mjólkursamsölunnar

Mímir félag stúdenta í íslenskum fræðum heldur dag íslenskrar tungu hátíðlegan með veglegri dagskrá þann 16. nóvember næstkomandi. Hátíðin  fer fram í stofu 201 í Árnagarði við Suðurgötu milli kl. 17 og 19. Heiðursgestur er Helga Kress. Fyrirlestrar, skemmtiatriði og léttar veitingar.  Dagskráin er í samstarfi við Mjólkursamsöluna. Allir eru velkomnir.   Dagskrá

Tengsl myndlistar og tungumáls

Á degi íslenskrar tungu, þriðjudaginn 16. nóvember kl. 20.00, stendur Nýlistasafnið á Skúlagötu 28 fyrir dagskrá þar sem flutt verða, og fjallað um, textaverk eftir nokkra íslenska myndlistarmenn. Síðustu áratugi hafa æ fleiri myndlistarmenn beitt textum í verkum sínum, sem birta nýstárlega nálgun við tungumálið: Íslenska sem myndmiðill. Þessi verk liggja utan við eða til hliðar við allar hefðbundnar  bókmenntagreinar þótt þau sæki sér þangað fyrirmyndir og form.

 • Í meðferð myndlistamannanna fær tungumálið nýtt samhengi og tilraunir þeirra opna nýjar leiðir til skilnings og tjáningar.
 • Þátttakendur eru eftirfarandi listamenn: Bjarni Þórarinsson, Magnús Pálsson, Birgir Andrésson, Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Haraldur Jónsson, Sigtryggur Berg Sigmarsson. Atburðinum er stýrt af Jóni Proppé, listheimspekingi.
 • Atburðurinn er haldinn í tilefni af yfirlitssýningu á verkum Bjarna H. Þórarinssonar, en í sýningunni er lögð sérstök áhersla á starf hans að samþættingu texta og myndlistar. Tengsl myndlistar og tungumáls hefur verið eitt af helstu viðfangsefnum framlínulistarinnar. Bjarni hefur markvisst unnið að verkum er tengja saman myndlist og tungumál á áhugaverðan og einstakan hátt í yfir 22 ár.

Á degi íslenskrar tungu er sýningin opin frá 12-17 og atburðurinn á sér stað sama kvöld kl. 20.00. Sýningin stendur yfir til 5. desember 2010.

Allir eru velkomnir og aðgangseyrir er enginn.

Dagur íslenskrar tungu í framhaldsskóla

Í Menntaskólanum við Sund er dagurinn t.d. helgaður lestri bókmennta á íslensku. Nemendur verða hvattir til lestrar íslenskra eða þýddra bókmennta.  Skiptibókamarkaður verður settur upp í skólanum og eru nemendur og kennarar hvattir til að leggja til bók úr eigin ranni á þann markað. Bókasafn skólans verður með útlánsstöðvar á tveimur eða þremur stöðum í skólanum.

Bloggþing-Tungumálið og Stjórnsýslan

Í tilefni af degi íslenskrar tungu og kynningar á nýjum vef Fjölmenningarseturs þann 16. nóvember standa Fjölmenningarsetur og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir Bloggþingi. Gauti Kristmannsson dósent í þýðingarfræðum ætlar að hefja umræðuna þar sem hann veltir upp ýmsum flötum á notkun tungumálsins innan stjórnsýslunnar. Bloggþingið fer fram í aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 111 frá kl. 12-13.

Menningardagur í Peking

Á degi íslenskrar tungu verður efnt til mikils menningardags í Peking og stendur sendiráðið þar fyrir opnun fimm sýninga á sviði myndlistar, hönnunar og ljósmynda, þeirra á meðal er hluti tengdur ljóðlistinni.

Dæmi um dagskrá í grunnskólum

Í Hamraskóla koma nemendur saman á sal og syngja, m.a. skólasöng Hamraskóla sem var frumfluttur á degi íslenskrar tungu 2009. Þá verður ljóðaupplestur, upplestur úr bókum, nemendur fá afhentar viðurkenningar fyrir lestrarsprett sem hófst 8. nóvember, nemendur úr unglingadeild lesa ljóð og örsögur. Þá hefst verkefnið Lestrarvinir og nemendur fjórða bekkjar lesa fyrir leikskólabörn á Klettaborg.

Dæmi um hvernig dagsins er minnst í leikskóla

Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur les og spjallar við leikskólabörnin á Lindarborg þriðjudaginn 16. nóvember í tilefni dags íslenskrar tungu.

 

Athugið, hér bætast við nánari upplýsingar um viðburði þegar nær dregur degi íslenskrar tungu.

Til baka Senda grein